Espergærde. Skýjafar og skíthælar

Fyrir nokkru kom út ljóðabókin Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur. Útgáfa bókarinnar fór ekki framhjá mér en ég brást þó engan veginn við að prentgripurinn væri kominn úr prentun og boðinn til sölu.  Ég keypti ekki bókina og bar mig heldur ekki eftir henni. Sumar bækur fljóta framhjá manni. Aftur á móti las ég fyrir nokkru ritdóm um bókina á internetinu. Í stuttu máli var ritdómarinn, Bragi Páll Sigurðsson, ekki sérlega ánægður með bókina, taldi hana of daufa, of linkulega og það var ekkert í ljóðagerðinni sem honum fannst sæta tíðindum. Hann taldi bókina gleymast jafnhratt og hún var lesin. Þetta var nú mat ritdómarans og lagði hann á sig að skrifa langan dóm þar sem hann útskýrði viðmiðin sem hann lagði til grundvallar dómnum. Hann hálfafsakaði sig fyrir að kunna ekki að meta ljóð Jónu, en út frá hans fagurfræði voru ljóð skáldsins ekki nógu sterk. Hann vildi meiri læti, meira blóð. Ég hef ekki lesið ljóðabókina Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur. Ég veit því ekkert um hana. En ég get upplýst að ég hef ekki sömu viðmið til ljóðlistar og ritdómarinn sem fjallaði um bókina. Í mínum huga þurfa ljóð ekki að vera eitthvert frumöskur til að teljast góð ljóð. En ég skil að minnsta kosti afhverju honum líkaði ekki ljóðabókin.

Mér finnst virðingarvert að til skuli vera heimasíða, (síðan heitir Starafugl), sem birtir ljóðagagnrýni og reynir að halda úti umræðu um skáldskap. Maður tekur hattinn ofan fyrir þeim sem leggja sitt af mörkum til að halda þessari vefsíðu gangandi með ljóðagagnrýni og annarri menningarumfjöllun. Þarna birtist fremur neikvæður dómur um ljóðabók og ég bjóst ekki við að það kallaði á viðbrögð úr bókmenntaheimum. En svo kom þruman úr hinu heiðskíra bókmenntalofti – eða kannski misskil ég eitthvað, það er kannski skýjafar eða jafnvel mjög þungskýjað og líkur á þrumum og eldingum sterkar. Annað ljóðskáld, ekki Jóna Kristjana sem sagt, hoppaði hæð sína í loft upp af bræði yfir dómnum, spúði eldi og brennisteini, þrumum og eldingum og kallaði gagnrýnandann öllum illum nöfnum á heimasíðu sinni. Hallærislegur, þröngsýnn og skíthæll voru orðin sem notuð voru yfir ritdómarann. Mér var svo brugðið að ég fór að velta fyrir mér hvort einhver dulin bönd, eða einhver tengsl sem ég þekkti ekki, væru milli ljóðskáldanna eða ljóðskáldsins og gagnrýnandans, sem gætu skýrt þessi sterku viðbrögð.

Ég hef svo sem engan áhuga á að taka þátt í neinskonar deilu um ljóðabók sem ég veit ekkert um en mér fannst bara nokkuð gróft að ráðast með fúkyrðum að manni sem lýsti því í löngu máli að hann hafði ekki haft ánægju af lestri þessarar sömu ljóðabókar. Maðurinn hefur fullan rétt á að finnast þetta og engin ástæða til að draga persónu hans niður vegna afstöðu hans til ljóðagerðar.

ps. þegar ég var búinn að finna mynd til að skreyta þessa dagbókarfærslu runnu skyndilega á mig tvær grímur. Hvað er ég að blanda mér í þetta? Hvað er ég að skipta mér af þessu? Já, ég hætti bara á að kalla yfir mig einhvern óhroða með afskiptasemi minni. En mér rennur bara til rifja að fólk, í skjóli tölvuskjás, notar orðbragð – óþarflega særandi – sem það mundi ekki nota augliti til auglits við sama fólk.

dagbók

2 athugasemdir við “Espergærde. Skýjafar og skíthælar

  1. Pingback: Fjallabaksleiðin

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.