Nú erum við drengirnir komnir til baka frá Jótlandi, keyrðum af stað frá Espergærde klukkan níu í gærmorgun og vorum aftur heima um klukkan hálfátta í gærkvöldi. Sus varð eftir. Þetta var sem sagt skotferð hjá okkur.
Ég ákvað í morgun, þegar ég hafði sent strákana af stað í skólann, að ég skyldi vinna heima, sitja inni í eldhúsi í stað skrifstofunnar á lestarstöðinni og einbeita mér að tvennu: þýðingunni fyrir Palla og verkefninu sem ég þarf að skila af mér í kringum áramótin. Það er fínt að sitja heima. Hér er enginn til að trufla nema Gattuso (köttur sem truflar ekki) og hljóðið í uppþvottavélinni (það truflar heldur ekki). Ég ætti því að geta einbeitt mér í dag. Og ekki ónáðar tölvupósturinn mig um þessar mundir.
Ég er hálf vankaður í dag, veit ekki alveg hvað veldur; ég var ekki einu sinni tilbúinn að vakna í morgun. Ég hef lagt vopn mín niður því þau eru tilgangslaus í höndum mér þennan morgun. Annan sokkinn minn finn ég ekki svo ég er berfættur á öðrum fætinum. En ég reyni að taka til fyrirmyndar rithöfundinn sem ég las viðtal við í gær. Hann vaknar á hverjum morgni klukkan fjögur og byrjar að skrifa. Um leið setur hann í gang forrit sem veldur því að á sextíu mínútna fresti frýs tölvan. Það er merki til hans að hann eigi að hreyfa sig. Hann notar þessar fimm mínútur sem tölvan er óvirk til að taka magaæfingar, liggja í planka eða taka armbeygjur. Svona heldur hann áfram fram til síðdegiskaffisins. Fimm daga vikunnar. Þetta kalla ég einbeitingu, dugnað og góðan vinnumóral. Spurning dagsins: Hver er rithöfundurinn sem um ræðir? Verðlaun 600 milljónir í reiðufé, flugmiði aðra leið til Burkina Faso og vikugisting á virðingarverðu hóteli í höfðborginni Ouagadougou.
ps. ég hélt að hljóðið hérna í eldhúsinu kæmu frá uppþvottavélinni. Það er ekki rétt. Nú rignir (ég hafði ekki tekið eftir því) og hljóðin sem ég heyri koma þegar regndroparnir skella á gluggum og þaki eldhússins. Ég hafði ekki einu sinni sett uppþvottavél í gang. Bara svo allt sé á hreinu.