Espergærde. Eins og vínber.

Ég er fullur af mótsögnum, eins og kannski fleiri.  Ég fer varlega þegar ég hitti nýtt fólk og hef varan á. Ég er kannski ekki tortrygginn, en ég held ákveðinni fjarlægð. En svo ákveð ég dag einn að skrifa dagbók sem er öllum opin. Kaktusinn opinn allan sólarhringinn. Þetta sótti á mig í gær þegar ég fékk tilkynningu frá hugbúnaðinum sem heldur utan um Kaktusinn, um að nú kæmu fleiri gestir en venjulega inn á Kaktussíðuna. Nýtt fólk. Einhver hafði sett eitthvað á facebook og vísað inn á síðuna mína og þá eru öll hlið opin. Inn á dagbókina mína kemur allskonar fólk sem ég þekki ekki. Þetta er ekki alltaf mitt fólk sem skyndilega er komið á kaf í dagbókina mína. Mér er bæði sama og ekki sama.

Kaktusinn hefut tveimur hlutverkum að gegna. 1) Að ég æfi mig í að skrifa íslensku og það er mikilvægt fyrir mann búsettan í útlöndum sem starfar á útlensku og talar útlensku allan daginn. Ég nota sjaldan íslenska tungu, bara þegar ég skrifa Kaktus og þegar ég skrifa þeim sem ég þekki enn á Íslandi.  2) Að halda kunningjum, vinum og fjölskyldu á Íslandi, þ.e. þeim sem hafa áhuga, upplýstum um gang mála hér í Danmörku og hvað sé að gerast í kringum mig.

Til dæmis: Á laugardaginn flýg ég aftur til Íslands og stoppa mjög stutt. Verð fram á mánudag. Ég á aftur erindi í Hvalfjörðinn.

Annað. Á ferðum mínum um Nýja Sjáland fyrir rúmum tveimur árum heimsótti ég vínbónda sem notaði nýstárlegar aðferðir við ræktun vínberjanna sinna. Hann fékk til dæmis hænur til að ganga um vínekurnar. Fé úr sérstaklega lágvöxnum fjárstofni fékk líka leyfi til að ferðast frjálst milli vínrekkanna til að borða gras sem vex í kringum vínviðinn og éta stikla sem vaxa neðarlega á vínviðnum. Hann notaði líka tónlist til að örva og gleðja vínberin sín. Hann hafði sett upp hátalara víða um vínlandið og spilaði allskyns fallega tónlist fyrir plöntunarnar. Ég hugsaði með mér að þetta væri kannski fulllangt gengið en mér fannst hugmyndin góð og tónlistin gladdi að minnsta kosti verkamennina í víngarðinum.

Í gær las ég svo skýrslu frá vísindamönnum. þ.e.a.s.  fræðimönnum í plöntutaugafræði við háskólann í Flórens. Þeir hafa rannsakað annan búgarð, ítalskan búgarð, sem ræktarítölsk vín, og spilar líka tónlist fyrir vínberin. Að vísu bara Mozart en það er heldur ekki slæm tónlist. Í fimmtán ár stunduðu fræðimennirnir rannsóknir á vínberjunum og hafa rannsakað áhrif tónlistar á berin í allan þennan tíma. Fyrstu niðurstöður benda til þess að meiri vöxtur sé í þeim berjum sem njóti Mozarts og að þau séu ríkari að lyktarsamböndum og sykri en berin sem vaxa í þögn. Ég er eins og vínber, ég vex betur við músik.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.