Espergærde. Allt er blautt

Gekk mína leið í morgun til vinnu í miklu úrhelli. Regndroparnir féllu af miklu afli niður af himnum, smullu á malbikinu og niður í hausinn á mér. Ég mætti einum niðurrigndum manni með hundblautan hund. Eftir götunum runnu regnlækir ofan í niðurföllin. Allt er blautt. Ég er blautur. Heimurinn er blautur. Nú mundi dagur í sólríkum, ítölskum ólífulundi kæta mig.

Ég ætlaði að muna að óska Guðmundi Andra til hamingju með forystusætið á Samfylkingarlistanum á Suðurlandi. Ég held að hann sé maður með hjartað í lagi og ég vona að honum takist að stýra því sem ekki er nógu gott inn í betri farveg. Það verður hans hlutverk. Ekki bara bera fram aðfinnslur heldur finna leiðir til að gera hlutina enn betri í hinu fína samfélagi sem Ísland er.

Ég gleymdi að minnast á að ég er fyrir löngu búinn með glæpasöguna Saklaust blóð eftir PD James (ég rifja þetta upp því skyndilega kom bókin í ljós hér undir blaðabunka á skrifborðinu). (Nú les ég Bernsku Sigurðar Pálssonar og væntanlega bók Friðgeirs Einarssonar, Formaður húsfélagsins.) Ég hafði lesið á fleiri en einum stað að í bókinni hennar PD James væri svo gott twist, svo vel undirbúið, að maður félli algerlega niður af stólnum þegar viðsnúningurinn kæmi. Ég datt ekki niður af stólnum og ég verð bara að segja að lestur bókarinnar var ekki besta notkun á tíma sem ég hef afrekað. Twistið fannst mér heldur ekki neitt sérstakt. Þegar ég las þýðingu Álheiðar Kjartansdóttur fór ég að hugsa um hvort íslenskan hafi breyst svona mikið á þeim þrjátíu árum síðan bókin kom út (1988 er útgáfuár þýðingarinnar). Ég las aðeins í frumútgáfunni og komast að því að í rauninni er ekkert að þýðingunni í sjálfu sér. En tungumálið frá árinu 1988 verkaði bara ansi hreint stirðbusalega á mig.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.