Espergærde. Rauðhærða konan og trúin sem ég missti aldrei

„Ég skrifa af því að ég mun deyja,“ sagði rithöfundur sem ég þekki einu sinni þegar hann var spurður afhverju hann gerði ekki eitthvað annað við líf sitt en að sitja og skrifa. Mér fannst þetta dálítið hástemmt en ég fann að þetta voru orð sem höfundurinn hafði hugsað lengi um svo ég efaðist ekki um að þetta var satt og rétt. Mér varð hugsað til þessara orða í gær þegar annar útlendur rithöfundur sendi mér sms og spurði: „Ertu búinn að endurheimta trúna á skáldsöguna.“ Ég hef aldrei misst trúna á skáldsöguna, svo ég veit ekki afhverju hann spyr, ekkert finnst mér nefnilega mikilvægara og meira gefandi en að lesa góða skáldsögu. Ég les af því að ég mun deyja voru orðin sem komu í huga mér.

Ég var sérstaklega glaður í gær, til mín streymdu heillaóskir, eins og ég hefði sjálfur unnið nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Ég varð dálítið undrandi hvað margir tengja nafn mitt við Ishiguro. Að vísu eiginlega bara á Íslandi, (þó tveir útelndingar) en ég varð eiginlega bara mjög stoltur. Einn vinur minn gekk svo langt að senda mér gjafabréf á veitingahús hér í bænum svo ég geti skálað við einhvern. Allt þetta gladdi mig mjög. Satt að segja fannst mér eins og Ishiguro sjálfur mundi hringja í mig til að ræða þessa óvæntu stöðu sem við tveir vorum lentir í.

Mér varð líka hugsað til rauðhærðar konu. Um hana hef ég skrifað áður:

„Kannski hafði rauðhærða konan sem sat við hlið mér í kvöldverðarboði fyrir nokkru þau áhrif á mig að ég hef frestað því í marga mánuði að lesa nýjustu bók minnar miklu hetju, Kazuo Ishiguro. Eða er þetta bara hugsun sem sprettur fram í huga mér þegar ég ligg í rúminu mínu á hinum tómlegu stundum rétt fyrir dögun, Sus liggur og sefur vært mér við hlið.

Konan var þybbin, talaði hátt og var ófeimin að grípa orðið í þessu samkvæmi sem ég var gestur í. Ég sat heldur þögull, eins og mín er von og vísa, og fylgdist meira með samræðum en að vera virkur þátttakandi. Þegar leið á kvöldið og sessunautur minn hafði tæmt nokkur rauðvínsglös byrjaði hún að reykja og sneri sér að mér. Við höfðum nánast ekki yrt hvort á annað allt kvöldið. Ég lít á hana og tek eftir að í bliki hennar er þessi þunna himna sem leggst yfir augu hinna drukknu. Svo kemur örlítil ölvuð þögn á meðan hún virðir mig fyrir sér og vegur og metur sitt næsta framlag til veislunnar: „Segðu mér, ef þú mættir velja einn rithöfund, hvaða höfund sem er, eina bók, hvaða höfund myndir þú vilja gefa út?“

Spurningin kom flatt upp á mig. Svona hafði ég aldrei hugsað fyrr. Ég man að Mál og menning hafði það fyrir leik á árlegum uppgjörsfundi sínum upp í Hveradal að velja  bók af útgáfuverkum annarra forlaga sem Mál og menning hefði sjálft viljað hafa gefið út. Þetta var leikur hjá hinu gamla stórveldi og það þótti upphefð að lenda á þessum lista MM. En svo ég svari spurningu drukknu konunnar. Ég velti aðeins vöngum og sagði svo hiklaust: „Kazuo Ishiguro er minn maður. Ég vildi að ég mætti gefa út nýju bókina hans THE BURIED GIANT.“ Bókin var ekki komin út í Englandi en ég hafði heyrt að hann hafði skilað handriti að bókinni. Rauðhærða konan svarað með þjósti. „Kazuo Ishiguro! The Buried Giant! Bókin er drasl! Ég las hana fyrir Gyldendal og mælti ekki með að þeir gæfu hana út.“ Svo sneri hún bakinu í mig og yrti varla á mig það sem eftir var kvölds.

Ég hef átt bókina The Buried Giants núna í nokkra mánuði og hef bara rétt lesið fyrstu síðurnar. Það leið líka langur tíma frá því að bókin kom út áður en ég keypti hana. Þetta óskiljanlega hik var skrifað á rauðhærðu konuna í nótt. Í dag byrjaði ég að lesa bókina fyrir alvöru og fann um leið að bók Ishiguros var eins og hún átti að vera.“

ps. ég vil líka minnast á að veðrið hér í Danmörku er óvenju fallegt. Sólin er í sannkölluðu hátíðaskapi, eins og ég, svo hún sendir sína fallegustu ljósgeisla niður til okkar hér í Espergærde. Allt ljómar og skín.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.