Reykjavík. Hitt fólk 3

Svaf í Reykjavík í nótt, í litlu húsi á Lindargötunni. Íbúðin öll hin vistlegasta, björt og rúmgóð með útsýni yfir til Esjunnar. Hér rignir. Við Óli arkitekt gengum snemma í morgun, klukkan 7:30, út til Brauð & Co. til að kaupa morgunbraut. Óla fannst ansi dimmt hérna að morgni dags í öllu þessu regni, og „hvar er allt fólkið? Skal enginn út að vinna, klukkan er að verða átta?“

Maður hittir alltaf einhverja sem maður þekkir hér á ferðum sínum um Reykjavík. Í gær fór ég inn í hið nýja Mathús við Hlemm og það var aldeilis gleðiðleg breyting á þeirri vesölu strætóstöð. Mér fannst Mathúsið að mörgu leyti mjög fínt. Þar settumst við ferðalangarnir frá Danmörku og fengum okkur smá hádegismat og settumst á bekk. Ég var rétt búinn að gleypa í mig fyrsta bitanum þegar bankað er í bakið á mér.
„Sæll,“ segir ungur maður og réttir mér höndina.
„Sæll,“ segi ég og horfi spyrjandi á manninn sem ég þekki ekki.
„Ég heiti Jónas og þú last handrit að bókinni minni sem Jón Karl sendi þér“
„Komdu sæll og blessaður, elskan mín,“ sagði ég, eða þannig. Ég spurði um framgang handritsins og hann talaði um spenning sinn fyrir útgáfunni og þakkaði mér fyrir að tala fallega um bókina hans.

Mitt í þessu samtali sé ég út undan mér unga, óvenju fríða konu sem mér fannst ég kannast við. Ég var nokkuð seinn að staðsetja andlitið en ég vissi vel að ég þekkti konuna og allt í einu rann upp fyrir mér ljós! Linda mín og við hlið hennar stóð Bogi. Ég kvaddi Jónas Reyni og óskaði honum alls hins besta og lofaði að ég mundi gera mitt til að aðstoða hann.
„Til hamingju með söluna,“ sagir Bogi. „Hvernig er lífið? Er í lagi að lifa án fastrar atvinnu?“
„Ég hef það aldeilis stórkostlegt,“ segi ég. „Ein af mínum fjölmörgu góðu ákvörðunum í lífinu.“ Ég glotti. „Sennilega í topp tíu af mínum góðu ákvörðunum. Ég er frjáls maður.“
„Heyrirðu þetta, Linda,“ segir Bogi eins og hann langi líka í frelsið mitt.

Í gærkvöldi borðuðum við á MATBAR sem var fyrirtak og þar hitti ég líka andlit sem ég þekkti. Bak við barinn stóð ung, grönn og brosmild stúlka. Það tók mit 9 sekúndur að átta mig á að þetta var litla, stelpan hans Jóns Karls sem var orðin að ungri konu. Aldeilis hvað tíminn líður. Þarna stóð hún, þessi blanda af Jóni Karli og Fríðu og var þjónn á veitingahúsi!

Ég hitti ekki fleiri, fyrir utan börnin mín og öll barnabörnin. En nú keyri ég út til Keflavíkur, kannski með stuttum útsýnistúr fyrir arkitekinn. Kannski keyrum við framhjá Bræðraborgarstíg og kíkjum á gömlu forlagsbygginguna, sem við fáum Ola arkitekt kannski til að breyta í íbúðir.

ps. Fékk aldeilis fína kveðjur frá Ísafirði þar sem skáldið Eiríkur Örn situr. Ég þakka kærlega fyrir örlætið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.