Espergærde. Morgunferð til Helsingør

Ég þurfti að þjóta til Helsingør strax snemma í morgun. Ég tók lestina frá Espergærde til Helsingør og lestarferðin tekur um það bil 8 mínútur. Þótt stutt sé til stórbæjarins Helsingør kem ég nánast aldrei þangað. Bærinn höfðar bara ekki til mín, mér finnst allir einhven veginn hálfslappir í þessum bæ, með hækjur, eða önnur hjálpartæki til að komast leiðar sinnar. Fáir ganga óstuddir, einir og sjálfir.

Þegar ég gekk eftir aðalgötunni þeirra, (Laugavegur Helsingørbúa) hugsaði ég með mér að kannski ætti ég að setjast á kaffihús þegar ég hefði lokið erindi mínu í bænum. Ég sá sjálfan mig fyrir mér sitja inni í notalegum yl frá ilmandi kaffivélum í mjúku leðursæti. Þar skyldi ég drekka einn kaffibolla og kannski fá mér muffin með. En ekkert varð af því, ég dreif mig bara aftur í lestina til Espergærde þegar ég hafði lokið því sem ég kom til að gera í Helsingør.

Það tók lestina frá Helsingør langan tíma að koma sér af stað frá brautarstöðinni. Lestin stóð kyrr eins og eftir einhverju væri að bíða. Sem betur fer fann ég bók í töskunni minni og gat lesið á meðan járnbrautarlestin stóð grafkyrr. Af einhverju ástæðum hef ég alltaf Ástkonu franska lautinantsins með mér í hliðartöskunni minni. Því ef neyðist til að bíða get ég alltaf tekið bókina upp og lestið einn kafla. Kafla sem ég vel af handahófi. Þetta hefur oft komið sér vel.

Ég veit ekki hvort ferðin til Helsingør hafi farið svona illa í mig. Ég kom inn á skrifstofuna og settist í stólinn minn á meðan ég beið eftir að kaffivélin næði kjörhita. Ég nennti ekki að kveikja ljós svo ég sat um stund í myrkrinu, beið þögull og hugsaði um eitthvað sem ég man ekki lengur. Skyndilega var bankað á dyrnar hjá mér og í dyrunum stóð Susanna sem vinnur hérna.
„Er ekki allt í lagi með þig?“
„Ha? Jú, svo sannarlega er allt í lagi með mig.“
„Nei, ég tók bara eftir að þú virtist svo annars hugar þegar þú komst inn og svo situr þú hér í myrkrinu.“
„Nú, já. Ég er bara að bíða eftir kaffinu.“
„Mér fannst bara vissara að spyrja.“ Og svo fór hún að sinna sínu.

Nú er allt í uppnámi með ferðina til Afríku sem var áætluð á laugardag. Skyndilega kom tölvupóstur frá hótelinu í Marokkó sem við höfðum pantað í febrúar um að hótelbókun okkar væri strikuð út. Við hefðum ekki lengur þetta hótelherbergi. Ástæðan var víst að það hafði verið sett inn rangt verð þegar við pöntuðum og nú væri verðið mun hærra og þau höfðu leigt öðrum herbergið okkar. Þetta hef ég ekki reynt fyrr. Ferðinni á laugardag er sem sagt aflýst.

ps. Mér fannst þau tíðindi gleðileg að ungi rithöfundurinn Jónas Reynir Gunnarsson skyldi vinna ljóðaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Ég hef að vísu ekki lesið ljóðabókina hans um olíuskipin en ég las nýju skáldsöguna hans, Millilendingu, sem kemur víst út þessa dagana og sá lestur sannfærði mig um að nokkuð væri spunnið í Jónas Reyni sem rithöfund.

pps. Mér þótti það svolítið fyndið að sumir kjósendur til Alþingiskosninga á Íslandi sem kalla sig rithöfunda telja eitt mikilvægast kosningamálið sé að bókaskatturinn verði afnuminn. Stórkostlega mikilvægt framfararmál fyrir land og þjóð. Ætli 99% af kjörgengum Íslendingum sé ekki nokkuð sama um bókaskatt eða setja hann mjög neðarlega í mikilvægisröðina. Sérhver manneskja er sérfræðingur í sér eða hver er sjálfum sér næstur.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.