Espergærde. Sá sem gleðst yfir litlu verður yfir mikið settur.

Mörgum finnst þetta kannski ótrúlegt, en þetta er samt eins satt og nokkuð kann vera satt. Í póstkassanum í dag biðu mín tvær sendingar. Þegar ég opnaði kassann þar sem pósturinn setur póstinn minn, og ég sá hvað beið mín, kom út úr mínum langa búk, bæði innilegt og algerlega ósjálfrátt fagnaðarhljóð. Yooooo! Fögnuðurinn átti sennilega uppruna sinn í innsta kjarna sálarinnar. Þetta var hin hreina og ómengaða gleði. Í póstkassanum hvíldi í sakleysi sínu Ljóðabréf fá Íslandi. Eftir þessu Ljóðabréfi hafði ég beðið með eftirvæntingu. Ég hef hlakkað til. Svo hafa vinir mínir hjá Modtryk, danska forlaginu, ákveðið að heiðra mig með því að senda mér nýjustu bók Håkan Nesser sem er uppáhalds glæpasagnahöfundur minn. Þessi tvö rit, sem lágu í póstkassanum, tek ég með mér í næstu ferð mína. Nú segi ég frá henni.

Við höfum ákveðið að halda af stað í nótt til Norður-Afríku og Sus hefur fundið gististað fyrir okkur í Marrakesh, borg í Marocco. Þetta verður gott. Allt hefur gengið vonum framar með pabba Sus. Aðgerðin í dag heppnaðist vel og þess vegna getum við haldið af stað. Við höfum fundið gististað sem uppfyllir kröfur okkar. Með árunum er ég orðinn kröfuharðari um svefnstaði, það er að segja ef ég hef fjölskylduna með. Ég nenni ekki einhverjum sýndargæðum. Sýndargæði fara í taugarnar mér. Þetta kemur sennilega með árunum og betri efnahag.

Ég las í dag grein eftir mann, Jóhann Helga Heiðdal, sem ég hef aldrei fyrr heyrt nefndan, um vin minn Kazuo Ishiguro. Greinin birtist í hinu ágæta vefriti Starafugl. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það bera vott um ótrúlegt sjálfsöruggi höfundar að hafa bara lesið tvær bækur eftir höfundinn  (sem hefur skrifað átta bækur) og sennilega eina tímaritsgrein (mér fannst ég kannast við orðalag) og fjalla samt um Ishiguro af slíkri dómhörku að ég varð að kyngja að minnsta kosti sex sinnum aukalega og bíta einu sinni í handarbakið á mér til að fá ekki tárin í augun. Ég tek hattinn ofan fyrir fólki sem vill fjalla um bókmenntir í tímariti eins og Starafugl. En ég leyfi mér samt, í flestum atriðum, að vera ósammála höfundi greinarinnar um höfundarverk Ishiguro. En athyglisverð grein. Takk.

Í dag hef ég verið ansi einbeittur. Lokahnykkurinn á vinnu minni fyrir Politiken, sem ég vil svo innilega vera laus við. Ég er rétt við endalínuna. Ég sat án matar og drykkjar, án þess að standa upp, án þess að líta af skjánum, frá því klukkan 07:27 til 17:54. Allan þennan tíma keyrði ég podcast með LESTINNI. Ég hlustaði sennilega á átta, eða áttahundruð, gamla þætti Lestarinnar í einsemd minni á skrifstofunni. Ég flýti mér að segja að það er bara frábært að RÚV skuli senda út slíkan öndvegisþátt um menningarmál. En það er töluverður gæðamunur á þeim sem sjá um innslögin í þættinum. Eiríkur og Anna Gyða eru ansi góð. Bæði eru orðin sjóuð og eru mjög eðlileg fyrir framan hljóðnemann og eru góð að laða það besta upp úr viðmælendum sínum. Halldór Armand pistlahöfundur er fyrirtak. Og mörg innslög eru svo sannarlega áheyrileg og áhugaverð. Huldar Breiðfjörð var til dæmis mjög góður í viðtali við Eirík um handritsgerð í kvikmyndum. Og ótrúlega var gaman að heyra í mínum gamla vini, Huldari. Hann er sjálfum sér líkur. Svo eru aðrir innslagsstjórnendur Lestarinnar síðari. Myndlistarþátturinn er kannski erfiðastur í Lestinni. Ég held að það séu bara of margir myndlistarmenn sem starfa við myndlist, sýna myndlist og eru aktívir, en eru bara ekki snillingar og hafa bara alltaf einhvern veginn, eitthvað á tilfinningunni, bara, sem sagt, algjörlega, þannig, finnst það svo fallegt … þú skilur.

Jesper, sem vinnur á skrifstofunni hjá mér, kom til mín undir lok vinnudagins og spurði hvort við ættum ekki að drekka nokkra bjóra saman áður en við færum heim. Ég var auðvitað til í það. Jesper er á leið til Íslands um helgina og er í krísu í vinnunni. Það voru margvíslegar raunir sem ég hlustaði á í dag og ég skyldi Jesper vel. Stundum er erfitt að vera starfsmaður með öðrum starfsmönnum. Hann er óvitlaus maður hann Jesper, en af öðru sauðahúsi en ég.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.