Marókkó, Marrakech. Raddir

Nú hafa Rolls Royce mótorar Boeing flugvélar Norwegian Air borið mig langt suður á bóginn. Ég hef flogið yfir gjörvalla Evrópu frá norðri til suðurs, yfir Gíbraltarsundið og inn í hina rykmettuðu Afríku og lenti á flugvellinum í Marrkech. Það er nú aldeilis falleg flugstöðvarbyggingin sem tekur á móti manni, bæði nútímaleg, björt og fallega smíðuð.

IMG_0504
Flugstöðvarbyggingin í Marrakech.

Mig hafði ekki grunað að ég ætti eftir að enda hér í þessari borg með þetta dularfulla nafn fyrir meira en tuttugu árum þegar Hjálmar Sveinsson, minn gamli dansfélagi, ýaði að þvi að hann langaði að þýða bók Hermann Hesse, Raddirnar frá Marrakech. Hjálmar kom niður á skrifstofu Bjarts (bókaforlagsins) þegar ég vann þar og talaði um þessa bók af miklum innileik og ég var alveg á því að íslenskt bókmenntasamfélag yrði miklu ríkara á að fá þessa bók á íslensku. Við sátum í sófanum við stigann og drukkum kaffibolla þegar Hjálmar, sá alvarlegi maður, sagði frá bókinni og undir samtalinu, og oft síðan, velti ég því fyrir mér hvað Marrakech var, og hvar? Ég hafði ekki hugmynd og lagði aldrei á mig að rannsaka það, heldur naut þess bara að til væri staður í heiminum sem ég vissi ekkert um, sem hefði svo falleg hljóð, fallegar raddir, svo dásamlegar, að Hermann, sá þýski spekingur, skrifaði um það heila bók. Hjálmar þýddi bókina aldrei.

En nú er ég hér, í Marrakech. Við búum í svokölluðu Riad, sem er hús byggt utan um húsgarð, þar sem herbergin, örugglega 8 herbergi, liggja umhverfis húsgarðinn. Í húsinu búa með okkur  tvær gamlar konur sem elda mat fyrir okkur og halda húsinu hreinu. Húsið fundum við á AirBnB og eigandinn, sem kemur frá Sviss, mun hafa átt húsið í 15 ár og leigir það út til ferðamanna. Gömlu konurnar tvær tala bara frönsku (og arabísku) og við tölum ekki frönsku svo samskiptin eru á hrognafrönsku. Númi hefur lært förnsku í eitt ár og hann kemur ansi sterkur til leiks.

IMG_0511
Húsgarðurinn okkar í Marrakech.

Við búum inni í miðbæ Marrakech, Medina, og þar er æði líflegt. Asnar, hestar, móturhjól og gangandi vegfarendur troðast eftir þröngum húsasundum þar sem  verslanir eru á báðar hendur. Í kantinum á gangveginum, oft á dyraþrepum verslananna, sitja kaupmennirnir. Sumir eru ágengir þegar þeir sjá okkur fjögur koma gangandi, hávaxin og ljóshærð, og örugglega með veskin úttroðin af útlenskum peningaseðlum.

Í dag ætlum við að ganga hér um borgina og sjá hvað dagurinn býður uppá. Eitt er víst að það verður ekki bjór á boðstólum. Þetta er múslímskt samfélag og þeir, múslimarnir hér í borg hinna fögru radda, eru ekkert mikið fyrir bjór. Hér verður ekki skálað fyrir einu né neinu.

Mundi allt í einu eftir að ég á mynd af póstsendinunni frá því á föstudag. Hér er myndin:

IMG_0499
Póstsending með lesefni fyrir ferðalag mitt til Marokkó. Ljóðabréf tileinkað Sigurði Pálssyni og inni í umslaginu er ný bók eftir Håkan Nesser. Í Marokkó eru ræktaðir góðir bananar og heimsins bestu applesínur.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.