Marokkó, Marrakech. Í sambúð með öldruðum

Við búum með tveimur öldruðum konum hér í Marrakech; Anja og Shred. Ég hef hugsað mér að taka mynd af þeim einhvern tíma. Þær eru hógværar og kurteisar og sjá um þetta fína hús fyrir hönd hins svissneska eiganda. Hér búa þær í einu af hinum stóru herbergjum hússins, elda matinn fyrir okkur og baka brauð fyrir morgunborðið. Þær gera líka hreint og búa um rúmin. Aldrei virðast þær fara út fyrir hússins dyr nema til að kaupa í matinn.

Ég var að velta fyrir mér hvað eigandi hússins gerir (þær hafa verið honum innan handar í 15 ár)  þegar þessar konur verða enn eldri og verða veikar og geta ekki lengur sinnt húsinu. Þær eru allan daginn saman inni í eldhúsi og sinna eldhúsverkum eða sitja við lítið eldhúsborð, hlusta á útvarp og rabba saman. Bráðum verða þær of gamlar til að sinna hlutverki sínu sem verndarar hússins og þá þarf húsið að venda þær.

Það er svolítið djúpt á fegurð Marrakech. Borgin hefur ekki náð að heilla mig, ekki frekar en arabísk menning. (Ég verð alltaf jafnglaður yfir að hafa fæðst á Íslandi. Vestræn menning á bara betur við mig en til dæmis sú arabíska.) Ég hef tilhneigingu til sjá hluti fyrir mér í hillingum; og Marrakech með sínar dulmögnuðu raddir hefur átt sess í minni rómatísku sýn á lífið. Einu raddirnar sem ég tek eftir – og kannski er Hermann Hesse að vísa til þeirra með bókatitlinum, Raddirnar frá Marrakech – eru hróp eða söngur karlmanna sem kalla til bænar. Það er ekki fögur hljóð. Rámar raddir jarma óhreina tóna.

Við skemmtum okkur þó mjög vel saman. Við gengum um alla gamla bæinn í gær, út til aðaltorgs bæjarins þar sem reynt var að fá okkur til að taka þátt í einhverju showi með tamdar eiturslöngur. Númi er hysterískt hræddur við slöngur svo við flúðum af vettvangi. Annars var túristastemmning yfir þessu torgi og maður fékk ekki frið fyrir innfæddum sölumönnum sem vildu selja varning sinn. Það var togað í mann og suðað. Við flýttum okkur burt. Við enduðum á að fara í bað með innfæddum, hammam-bað. Maður er smurður olíu og leir og skrúbbaður með grófum bursta og á endanum fær maður nudd. Þetta var fínt. Ég er mjúkur eins og barnsrass.

Svo kemur maður heim að kvöldi og konurnar tvær bíða með glæslegan og bragðgóðan marokkóskan heimilismat.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.