Marokkó, Marrakech. Bekkjarseta í ókunnu landi

Við erum á leið upp í fjöllin í dag,  það er að segja ef heilsan hjá Núma leyfir. Hann er með magakveisu en vill samt að við höldum af stað. Ekkert væl í unglingnum.

Í gær héldum við niður í miðbæ, gengum bæinn þveran og endilangan eins og venjulega. Í miðbænum eru verslanir með evrópsku sniði og sumar freistuðu meðferðalanga minna.

Á meðan setti ég mig niður á bekk. Ég er vanur að sitja á bekkjum í öllum heimshornum. Á þessari götu stóðu þrír bekkir á gangstétt fyrir framan verslunarkjarnan og ég valdi þann ysta af bekkjunum þremur. Enginn sat á hinum bekkjunum en allt í kringum mig gekk fólk fram og til baka eftir gangstéttinni; götusalar og fólk með erindi.

Ekki leið á löngu þar til ég fékk sessunaut á bekkinn. Ekki skyldi ég, að maðurinn sem settist á bekkinn minn, valdi ekki einn af hinum lausu bekkjum. Hann vildi augljóslega sitja við hliðina á mér. Þar að auki sat hann þéttara upp að mér en nauðsyn var. Ég mjakaði mér lítilega frá manninum sem ekki var sérlega snyrtilegur, en hann hafði okkur til skemmtunar útvarp meðferðis sem hann stillti hátt.

Frá útvarpinu bárust hinir trúarlegu tónar sem heyrast víða hér í Marokkó, hálfgerð lagleysa með einhverjum mikilvægum boðskap, sem því miður fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Við sátum saman og hlustuðum á útvarp á meðan fólk gekk hjá. Margir reyndu að selja mér varnig sinn, sólgleraugu, úr og annað drasl.  Við hliðina á bekknum átti ungur maður annríkt með að leigja hjól. Að leigja hjól virtist fylgja ægileg pappírsvinna.

Margir vildu fá að bursta skóna mína, enda margir skóburstarar á götum Marrakech;  nóg er rykið til að gera skóna matta. Ég þáði skóburstun frá einum sem bauð þjónustu sína fyrir 5 peninga. Hann byrjaði að bursta af mikilli fimi, þrír burstar á lofti í einu. Svo tók hann upp skókrem og spurði hvort ég vildi fá krem á skóna mína. Ég þáði það og enn voru burstarnir þrír á lofti og einn svampur. Svo leit hann skyndilega á mig og útskýrði að nú hafði verðið fjórfaldast vegna þess að hann bar krem á skóna mína. Nú kostaði skóburstu 20 peninga. Ég hafði svo sem gert ráð fyrir þessu bragði skómeistarans. Viðskipt hér í þessu landi eru sjaldnast á sérlega beinum brautum. Það er endalaust beitt brögðum sem ekki mundu ganga í mínu heimalandi.

Við höfðum setið saman, ég og ósnyrtilegi maðurinn með útvarpið í meira en tíu mínútur – og nú var ég í glansandi skóm –  þegar hann stóð á fætur og gekk leiðar sinnar með útvarpið og sönginn. Ég var feginn að fá að sitja einn og í friði. Ég vissi að verslunarferðin mundi taka sinn tíma hjá ferðafélögum mínum og því var bekkjarsetan kærkomin. En ég fékk ekki að sitja lengi einn. Þrír ungir menn, sennilega sautján eða átján ára höfðu verið á sveimi í kringum mig og nú settist einn þeirra hjá mér (hinir bekkirnir tveir voru enn lausir). Ég skynjaði að eitthvað var í uppsiglingu, eða ég var viss um að eitthvað vildu þeir mér, drengirnir þrír. Ég sat þó kyrr og varðist af nokkurri fimi fleiri götusölum og betlurum  Drengurinn við hliðina á mér lét lítið á sér bera. Hann sat bara og það var eitthvað óeðlilegt að hafa þennan dreng sér við hlið. Hann ætti að valsa um eins og aðrir ungir drengir í stað þess að sitjandi hreyfingalaus við hliðina á mér. Ég lét þó ekki á neinu bera, ekki ætlaði ég að standa upp fyrr en ferðafélagar mínir voru búnir að versla. Skyndilega sé ég að hann laumast í vasa sinn og dregur upp langa skítuga nál og setur einskonar járnhólk á þumalfingur sér. ‘Hvað er þetta nú,’ hugsaði ég. ‘Ekki ætlar drengurinn að stinga mig með þessari nál?’ Ég sat enn kyrr en nú mun órólegri en fyrr á meðan hann handfjatlaði nálina laumulega í lófa sér. Svo byrjaði drngurinn að mjaka sér nær mér. Það fór ekki á milli mála að ég var orðinn skotmark þessara drengja því hinir drengirnir tveir tóku sér nú stöðu ekki langt frá mér, hölluðu sér upp að vegg og fylgdust með okkur á bekknum.

Mér leist ekki á blikuna, stóð því í rólegheitunum upp og gekk fram hjá drengnum með leigureiðhjólin og í átt að inngangi verslunarmiðstöðvarinnar. Ég skimaði í átt til bekkjarins þar sem ég hafði setið og sá að drengurinn var líka staðinn upp og stóð nú á tali við félaga sína tvo.

Ég veit ekki hvað þeir voru með á prjónunum þessir þrír kumpánar, kannski var ég bara paranoid, en mér fannst satt að segja óþægilegt að sitja við hlið þessa vopnaða pörupilts, og nálina vildi ég ekki fá undir mína mjúku húð.

dagbók

Skildu eftir svar