Marokkó, Marrakech. Læknaseyði

Ekkert varð úr för okkar upp í fjöllin í gær. Númi náði aldrei að komast fram úr rúminu til annars en að kasta upp. Hann var þó bjartsýnn fram að fyrsta gubbi að við kæmumst af stað. Við vorum því að mestu heimavið með gömlu konunum. Ég las allan daginn, Davíð hlustaði á hljóðbók og Sus las í tímaritum og fræðibók um áhrif símnotkunnar á heilastarfsemi. Númi svaf.

Gömlu konurnar tvær sem búa hér með okkur voru ansi áhyggjufullar yfir vanheilsu Núma. Önnur þeirra þusti af stað út úr húsi og kom svo skömmu síðar með alls kyns jurtir. Síðan hófu þær að brugga seyð, tvennskonar seyð fyrir magann. Ég veit ekki hvort það hjálpaði, en nú þegar ég skrifa er klukkan orðin hálf átta að morgni og Númi er kominn á ról og hefur lýst því yfir að hann geti vel komið með upp í fjöllin í dag.

Ég hef lesið í fyrirtaks smásagnasafni Friðgeirs Einarssonar sem er væntanleg á næstu dögum eða jafnvel nýútkomin. Og svo las ég 350 síður í glæpabók Håkan Nesser. Fyrirtaks skemmtun. Mig langar satt að segja að vita meira um höfundinn Håkan Nesser. Einhvern daginn ætla ég að lesa nokkur viðtöl við manninn og sjá hvað ég læri.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.