Marokkó, Marrakech. Fyrsti hippsterinn

Við keyrðum niður að strönd í gær, ekki upp í fjöllin eins og við höfðum ætlað okkur. Við enduðum í litla hafnarbænum Essaouira sem er sennilega þekktastur fyrir að hafa verið um skamma hríð hippanýlenda og dró til sín á þeim árum tónlistarmenn eins og Cohen, Hendrix og Cat Stevens. Ekki er þetta fagur bær frekar en annað hér í Marokkó. Það er fátt fallegt í Afríku. Engin falleg hús bera fyrir augu, bara hroðalega lúin og ljót. Náttúran er ekki klassísk fögur; urð, sandur, grjót og svo ræfilsleg tré á stangli.

Þegar við keyrðum eftir veginum niður til hafsins tók ég eftir að flestir þeir sem keyra bíl hér í landinu keyra á Citroen Berlingo, ljótasta bíl í heimi. Vegirnir eru fullir af þessari keyrandi hryggðarmynd. Þegar Berlingobíltegundin verður á vegi mínum – maður sér þennan bíl varla lengur á götum Danmerkur, einhvern veginn hefur framleiðandanum tekist að lokka ökumenn frá Afríku til að taka þennan ljóta bílinn opnum örmum  – verður mér hugsað til eins ágæts félaga míns. Hann er útlendur rithöfundur og ég held bara fyrsti hippster heimsins.

IMG_0578

Vinur minn keyrði aðeins gamla Mercedes Benz bíla þegar hann þurfti að keyra bíl. Honum fannst það hæfa persónuleika sínum best. Gamlir Benzbílar eru glæsilegir og svalir, eins og félagi minn. En gömu Benzarnir hans höfðu tilhneigingu til að bila svo meginhluti fjölskyldupeninganna fóru í að reka þetta mikla tákn um persónuleika vinar míns. En frúin hans hló ekki í þessum betri bíl. Henni fannst þetta ægilegt rugl að nota þá fáu peninga sem fjölskyldan hafði til umráða til að reka Benzbíl. Félagi minn fór i fýlu út í frúna; hvað var hún að setja út á ímyndarbyggingu hans? Hann var mikilvægur rithöfundur! Hann ákvað því í mótmælaskyni að selja Benzbíl fjölskyldunnar og kaupa ljótasta bíl í heimi, bíl sem hafði engan svip, engan glæsileik og geislaði einungis ömurleika og volæði; Citroen Berlingo. Þennan bíl keyrði fjölskyldan á þar til þau hjónin ákváðu að skilja.

Í dag ætlum við aftur út að keyra, á gömlum Benzbíl. (Í alvörunni.) Við ætlum upp í fjöllin og reyna að finna eitthvað fallegt. Ég hef þann veikleika að gera allt ókunnugt rómantískt. Áður en ég kom í fyrsta sinn til Afríku var þessi heimshluti sveipaður dulúð og hér lúrðu hættur í hverju horni. Í mínum huga hljómaði þungur trommusláttur yfir Afríku. Kosturinn, eða ókosturinn ef maður vill líta svo á, við að ferðast er að nú byggist þekking mín á Afríku ekki bara á hugarsýn og ímyndun. Hér er ekki sérlega hættulegt að ferðast, hér heyrir maður aldrei trommuslátt, það er meira að segja örsjaldan sem músik heyrist.

Að vísu gerðist það í gær, og það var aldeilis óvenjulegt. Við gegnum framhjá verslun inni í miðbæ Essaouira sem skar sig úr öðrum verslunum sem við höfum séð. Hér selja allir það sama, teppi, töskur og einhverja útskorna muni. En ég sá inni í versluninni glitta í gamlan plötuspilara og gamlar LP plötur. Við gengum inn. Ég veit svo sem ekki hvað var til sölu og hvað var ekki til sölu í búðinni, en þarna inni voru margir mismunandi stólar og sófar, borð og lampar. Innst inni í horni sátu þrír menn í áköfum samræðum. Þegar þeir urðu okkar varir, stóð einn þeirra á fætur og gekk ákveðnum skrefum að plötuspilaranum, bauð okkur sæti og setti Chet Baker, In Paris-plötuna á fóninn. Hann brosti og settist aftur með félögum sínum. Svo sátum við og hlustuðum á Chet í tíu mínútur og létum þreytuna líða úr göngulúnum fótum okkar.

IMG_0582
Hin Marokkóska fegurð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.