Marokkó, Marrakech. Saffranbóndinn

Maður getur ekki annað en talið sig heppinn að búa hjá gömlu konunum tveimur hér í Marrakech. Þær elda þennan dýrðlega mat fyrir okkur kvöld eftir kvöld. Allskonar klassískir marokkóskir réttir, sem sagt heimilismatur af bestu gerð. Hæg- og langsteikt lambakjöt eða kjúklingar. Kúskús (tveggja tíma prósess) og grænmeti. Kjöt eða grænmeti inni í djúpsteiktu deigi. Marrokóskar pönnukökur og brauð. Þetta er nú meiri veislan. Við höfum borðum einu sinni á veitingastað hér í Marrakech sem var algjör tímaeyðsla.

Við keyrðum upp í fjöllin í gær og þar var miklu frjómsamara, og fallegra, en leiðin niður að sjó. Á ferð okkar hittum við mann með úlfaldaunga, eða hvað maður kallar barnungt kameldýr. Ég held upp á kameldýr, mér finnst þau svo svipfalleg, því fór ég og heilsaði upp á ungviðið.

ulfaldi
Úlfaldaungi.

Sus hafði fundið stað þar sem við gætum borðað hádegismat, eitthvert hótel sem átti víst að bjóða upp á góðan mat og fallegt útsýni. Við ákváðum að fá okkur eitthvað í gogginn þar í hádeginu. Hótelið reyndist fullt af Dönum. Það fannst mér furðulegt, langt uppi í sveit. Í öðru lagi var staðfest enn og aftur hvað maturinn hjá gömlu konunum er mikill gífurlegur lúxus. Ég pantaði mér cesarsalat á hótelinu (hinn rétturinn á boðstólum var eitthvað hakkað kjöt sem ég vil helst ekki borða hér í landinu) og það var í tilgerðarlegri útsetningu, cesarsalatið, og hafði engan bragðkarakter.

Á heimleiðinni rákumst svo á svissneska konu sem hefur sest að í Marokkó. Ég á dálítið erfitt með að skilja hvernig maður getur fallið svo fyrir landi og þjóð að maður ákveði að flytjast hingað búferlum, en það gerði hún. Hún hafði haft ágætt starf í ferðamannaiðnaðinum í Sviss, sagði hún okkur, en leið ekki vel í stressinu og ákvað því að segja upp starfi sínu,  fjörutíu og fimm ára gömul, og flytja til Marokkó. Landinu hafði hún kynnst í gönguferð nokkrum árum fyrr. Hún keypti jörð í suðurhluta Marokkó og reyndi að koma á fót viðskiptum í kringum gönguferðir í þeim hluta landsins. Eftir tvö mögur ár var hún næstum búin með peningana sína og bissnessinn gekk hreint ömurlega. Hún gafst upp og flutti til Marrakech. Þar bjó hún í tvö ár í fátækt og lærði arabísku. Hún var bæði einmana og ráðvillt eins og hún sagði.

Dag einn fór hún í ferðalag upp í fjöllin og hitti fyrir tilviljun bændur sem ræktuðu saffran. Allt var í blóma, saffran blómin lituðu marga hektara með sínum fjólubláu blómum. Þetta fannst henni falleg sýn. Hún vissi ekkert um saffran en ákvað að hún vildi prófa að finna stað þar sem hún gæti líka ræktað saffran. Hún leigði jörð upp í fjöllunum og byrjaði að setja niður saffranlauka. Þetta var árið 2012 og nú ræktar hún tvo hektara (tvo fótboltavelli) af saffranblómum og selur saffrankrydd til ferðamanna og flytur út til nokkurra landa.

Ég verð alltaf svo upprifinn og hrifinn af svona hugrekki og dugnaði. Mig langar alls ekki að verða saffranbóndi – ég á nóg með mínar frábæru ólífur – mér finnst saffran bara ekki bragðgott krydd. Og ekki langar mig að flytja til Marokkó. Ne-ei.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.