Marokkó, Marrakech. Húsálfarnir

Nú fljúgum við heim á leið í dag. Ég vaknaði um leið og kallað var til bænar hérna í morgun, ætli klukkan sé ekki bara hálf sex þegar þeir byrja að reka fólk fram úr bælinu til að biðja. Þau eru áköf bænaköllin – miklu ákafari en kirkjuklukkurnar sem kalla til kirkju á Íslandi – og þeir hrópa á Allah og dásama hann í hrópum sínum. Ekki veit ég hvað margir þjóta á fætur til að biðja svo snemma en ég tók mér góðan tíma til að koma mér fram úr. Las tölvupósta næturinnar í rúminu, las New York Times og kom mér svo í sturtu.

Húsálfarnir tveir, gömlu konurnar, hafa verið lengi á fótum og sýslað í eldhúsinu, steikt pönnukökur, hellt upp á rótsterkt kaffi og lagt fallega á morgunverðarborðið. Þær passa að vinna hljóðlega svo gestir þeirra vakna ekki. Í gær höfðum við Númi áætlanir að sjá toppfótboltaliðið hér í Marrakch spila á móti Casablanca. Leikurinn var klukkan 19:00 en húsálfarnir okkar höfðu undirbúið hátíðarmáltíð allan daginn – einskonar böku sem boðið er upp á í brúðkaupum í Marokkó – svo  við Númi fengum okkur ekki til að fara á fótboltaleik eftir að við uppgötvuðum hvað þær höfðu verið að bauka í eldhúsinu.

Ferðin til Marokkó hefur  í alla staði verið góð og skemmtileg. Og alltaf kann ég betur að meta hina evrópsku menningu. Það er líka ánægjulegt hvað maður hlakkar alltaf mikið til að koma heim.

Ég hef lesið töluvert í ferðinni; Ljóðabréf, Håkan Nesser (sem er aldeilis bókarhnullungur) Friðgeir Einarsson og nú er ég að byrja á John leCarre. Gaman, gaman.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.