Espegærde. Að veðja á rétta menn

Maður stígur um borð í Boeing flugvél og flýgur með henni í fjóra klukkutíma. Það er  himinn og haf sem aðskilur brottfarar- og lendingastað; Marrakech-København. Ég er kominn heim. Vaknaði snemma eftir óróasama nótt; ég hósta. Ég hef það sem ég kalla fjölskylduhósta, þann sama og mamma mín; síhósta. Úti buldi regn á glugga; þetta var ekki Marrakech með sitt svarta næturmyrkur og heita, rykmettaða daga sem ég vaknaði til. Fyrir utan er Espergærde. Ég ákvað að ganga til nýja bakarans niður við höfnina þegar ég hafði klætt mig. Hér í húsinu mínu eru engir húsálfar sem baka pönnukökur árla morguns, því kaupi ég rúnstykki hjá brauðgerðarmanninum.

Vika í Marrakech er að baki og í póstkassanum á Søbækvej beið mín vika af pósti; dagblöð, gluggapóstur og eitt handskrifað umslag frá Íslandi. Ljóðabók Dags Hjartarsonar, Heilaskurðaðgerðin, hafði augljóslega beðið nokkra daga eftir að verða lesin því pappírinn, bæði í kápu og innsíðum, var rakur og undinn. Kannski hafði hún svitnað af spenningi og eftirvæntingu. Sjö dagar og sjö nætur í póstkassa er ekki kjöraðstæður fyrir viðkvæma ljóðabók. Ég var því fljótur að setjast með þessa litlu bók í mjúka lesstólinn minn til að létta á spennunni.

Inni í herberginu þar sem lesstóllinn minn stendur, eru margar bækur í hillu. Sennilega of margar. Það eru líka bækur á borðinu við hlið hægindastólsins, bækur sem ég er að lesa. Nýi leslampinn minn hangir á veggnum fyrir ofan stólinn. Hann er góður, leslampinn. Stíðskötturinn Gattuso gægðist inn um gættina þegar ég settist og var fljótur að leggja sig á stólbakið fyrir aftan hnakkann á mér þegar hann sá að ég var sestur. Gattuso er feginn að fá okkur aftur heim.  Ég hafði ekki lesið lengi þegar mér varð ljóst að þennan ljóðadreng, Dag Hjartarson, hefði ég viljað gefa út væri ég enn forleggjari á Íslandi. Ljóðabókin hans, Heilaskurðaðgerðin, er án efa áhugaverðasta, íslenska ljóðabók sem ég hef lesið í háa herrans tíð. Ég var einlæglega glaður og hef ekki verið svona uppnuminn yfir íslenskri ljóðabók síðan ég las Ansjósur Braga Ólafssonar. Þessi bók þolir að ég lesi hana aftur og aftur á göngutúrum yfir Klambratún eins og ég gerði með Ansjósurnar á sínum tíma. Þótt það skipti auðvitað engu máli en ég yrði meira en hissa ef Heilaskurðaðgerðin fengi ekki tilnefningu til bókmenntaverðlaunanna íslensku.

Bók Dags, skáldsagan Síðasta ástarjátningin, sem ég las um í kynningartexta á innábroti ljóðabókarinnar, hefur algerlega farið framhjá mér. Sennilega hef ég verið á ferðalagi þegar hún kom út. Ég verð að eignast hana. Ekki kæmi mér á óvart (allt kemur í ljós með tímanum) að Ísland hafi eignast mikilvægt skáld, mikilvægan fótgönguliða í baráttunni fyrir hinum uppreista manni. Ég veðja algerlega á þetta skáld.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.