Espergærde. Allt á floti alls staðar

Morguninn byrjaði ekki vel. Ég vaknaði rétt um sexleytið og fann að ég var enn veikur, dúndrandi hausverkur og almennur slappleiki. Ég druslaðist þó fram úr eftir að hafa vorkennt sjálfum mér um stund og þreifaði svo fyrir mér í myrkrinu eftir handklæði til að taka með mér inn í sturtu. Sturta gerir oft kraftaverk. Einhver sagði mér, sem er örugglega eitthvað bull, að jónaballansinn á húðinni nái jafnvægi og því hafi maður það gott eftir sturtu. Já. Davíð svaf við hliðina á mér í nótt; hann er kúrukall og er ánægður að fá að sofa mér við hlið þegar Sus er að heiman.

Ég hafði ekki verið lengi í sturtu þegar Númi kom upp og sagði að allt væri á floti í baðherberginu niðri, vatn út um allt. „Hvað á ég að gera?“ spurði unglingurinn sem byrjar í nýrri vinnu með skólanum í dag.

Vatnsflóð á baðherbergi var ekki óskasena þessa morguns, ég var bara hvorki í stuði fyrir vesen né hafði ég krafta til að standa í veseni. Þegar ég kom niður kom í ljós að niðurfallið á sturtunni var stíflað og unglingurinn hafði ekki tekið eftir því að hann stóð í vatni upp til ökla. Hmm. En þetta bjargaðist – baðherbergisgólfið er orðið þurrt – og nú sit ég  einn heima í eldhúsinu, strákarnir farnir í skólann,  og ég ætla að vera hér og vinna í dag. Ég hef bara ekki krafta til að ganga upp á skrifstofu, en ég er ákveðinn í að afkasta miklu þrátt fyrir slappleikann.

Í gær gerðist ég svo djarfur, hér á mínum Kaktus, að óska eftir fréttum að utan, að einhver sendi mér uppörvandi fréttir í veikindum mínum. Það hefði verið katastrófa hefði enginn brugðist við minni auðmjúku bæn þá hefði ég haft á tilfinningunni að ég væri einn og yfirgefinn í útlendu regni. Sem betur fer fékk ég bæði löng og stutt bréf; fréttir, slúður og lækningakvæði. Það létti mína lund.

Í gærkvöldi komum við drengirnir okkur fyrir í sófanum inni í stofu eftir hamborgarakvöldmáltíð. Númi lagðist með sitt Snapchat og hvað þau heita öll þessi fínu samskiptaforrit sem unglingarnir nota til að halda sambandi við vini sína. Davíð stúderaði ljósmyndun á YouTube en ég horfði á þýsku kvikmyndina Faðir minn Toni Erdmann. Ég hafði miklar væntingar, enda lesið góða dóma og umsagnir um kvikmyndina. Það voru kannski hinar stóru væntingar sem drápu myndina aðeins fyrir mér. Ég hafði gaman af myndinni, stórfín kvikmynd en ekki stórkostleg eins og mig hafði dreymt um.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.