Ég er allur að braggast sem er mikill léttir. Það eimir þó enn eftir af höfuðverknum, enn er verið að banka inni í hausnum á mér. Ég byrjaði daginn harla óvenjulega. Í nótt hugsaði ég um það sem ég á útistandandi á Íslandi, ýmisleg óuppgerð mál sem hafa truflað mig. Ég ákvað því í morgun að vinda mér í að ganga frá að minnsta kosti þremur þessara mála sem leita á mig af og til. Þrír tölvupóstar voru sendir af stað og nú bíð ég viðbragða.
Ég las ansi skemmtilega grein um daginn um sænskt fótboltalið, Östersunds FK, sem hefur tekið upp óvenjulegar aðferðir til að efla liðsanda og á endanum spila betri fótbolta. Liðið lék í fjórðu bestu deild í Svíþjóð fyrir sjö árum. Þá var ráðinn til liðsins skoskur þjálfari, Graham Potter (bróðir Harry). Graham hafði sjálfur verið miðlungsgóður fótboltamaður, spilaði stöðu bakvarðar hjá WBA um tíma, en ákvað að leggja skóna á hilluna og leggja fyrir sig þjálfun. Hann hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig best væri að ná sem mest út úr hópi misgóðra knattspyrnumanna. Hann lauk bæði æðstu þjálfaragráðu og háskólaprófi í viðskiptum með áherslu á stjórnun.
Það var sem sagt árið 2010 sem maður að nafni Daniel Kindberg – mikill eldhugi og baráttumaður fyrir eflingu lífs í Östersund – hafði samband við Potter og spurði hvort hann vildi koma og þjálfa lið Östersunds FK, nefnt eftir samnefndum bæ langt upp í norður Svíþjóð (1000 km norður af Stokkhólmi). Potter kom og setti þau skilyrð að hann fengi að nota sínar aðferðir til að stýra liðinu og hann lofaði að liðið skyldi spila í annarri af stóru evrópsku keppnunum árið 2017. Það var samþykkt og nú hófust þeir handa Daniel Kindberg og Graham Potter. Nýir leikmenn voru fengnir til Norður-Svíþjóðar, allt leikmenn sem voru komnir út á hliðarspor í knattspyrnuferli sínum og var þeim lofað að Östersunds væri staðurinn þar sem fótboltaferillinn færi aftur á beinu brautina. Það er auðvitað ekki auðvelt að lokka knattspyrnumenn upp í hið freðna landslag Norður-Svíþjóðar.

En Potter og Daniel tókst að skrúfa saman hóp í lok sumars 2010 og var þjáfunarprógrammið sett í gang. Markmið var að efla samkennd spilaranna og skapa hóp sem væri fær um að koma Östersund á landakort knattspyrnunnar. Það fyrsta sem Potter gerði var að ráða söngstjóra til að stýra kór knattspyrnumannanna. Söngur er æfður tvisvar í viku og á hverju vori er haldnir tónleikar. Leslistar yfir bókmenntir voru lagðir fyrir leikmennina. Eins var ráðinn balletkennari og hafa fótboltamennirnir m.a. sett á svið stytta útgáfu á Svanavatninu auk fleiri klassískra balletverka. Bæði tónleikar og balletsýningar íþróttamannanna eru stórviðburðir í menningarlífi Östersunds. Alltaf er uppselt. Síðast þegar Svanavatnið var sýnt hefði verið hægt að selja að minnsta kosti 5000 aukamiða. Þannig tókst Daniel Kindberg bæði að efla menningarlíf í Östersund og sameina íbúa þessa sænska smábæjar um fótboltalið.
„Ég er ekki viss um að áhersla okkar á menningu geri það að verkum að við spörkum fastar eða gefum betri sendingar. En ég er sannfærður um að við fáum betri manneskjur út á fótboltavöllinn. Við leitum ekki að göllum hvers annars. Við byggjum upp. Við þróum samúð okkar með öðrum, við getum sett okkur í spor annarra, við tökum ábyrgð, við stöndum saman og við þorum að horfa á okkur í speglinum. Allt þetta gerir liðið betra í að spila fótbolta,“ sagði Graham Potter í viðtali við sænsku pressuna eftir sigur liðsins á þýska liðinu Herthu Berlin í september í ár.
Árangurinn í knattspyrnuvellinum lét heldur ekki á sér standa. Árið 2016 spilaði liðið í fyrsta sinn í efstu deild sænsku knattspyrnunnar, Allsvenskan, og vorið 2017 vann Öresund sænsku bikarkeppnina sem gefur aðgang til UEFA deildarinnar evrópsku.
Í haust hófst svo riðlakeppnin í UEFA keppninni. Lið Östersunds FK er efst í sínum riðli þar sem stórliðin Hertha Berlin og Athletico Bilbao eru meðal mótherja. Östersunds hefur unnið Herthu 1-0, Zorya 2-0 á útivelli og gert jafntefli við Athletico Bilbao 2-2
Þetta var nú dagbók dagsins 25. október 2017. Nú held ég áfram við að þýða þar sem frá var horfið í gær klukkan 22:00. Já, ég er iðinn. Yo!
Skemmtilegt! Ég hlustaði einmitt á Sparkvarpið. Sem er podcast hjá Kjarnanum. Þeir voru einmitt að fjalla um Östersund.
Gaman að þér finnist skemmtilegt. Já, Östersund vekur athygli.