Espergærde. Íþróttaálfurinn og Lestarstjórinn

Hvað mega opinberir starfsmenn í mikilvægum stöðum segja opinberlega? Palli Vals sagði mér frá því í gær að Eiríkur Guðmundsson, Lestarstjórinn og þungavigtarmaður í heimi íslensks bókmenntalífs hefði verið að hæla væntanlegri bók Jóns Kalmans, Sögu Ástu, og verið harðlega gagnrýndur fyrir það. Bókin hans Kalmans strax komin í umræðuna, hugsaði ég. Ég misskildi Palla og hélt að Eiríkur hefði verið að hæla Kalman í Lestinni, útvarpsþættinum,  og ég varð satt að segja svolítið hissa og fannst það ekki líkt Eiríki að slá slík vindhögg að nota stöðu sína í stjórnvagni Lestarinnar til að hampa vini sínum.

En ég skildi svo um síðar að um Facebooksíðu Eiríks var að ræða og þá varð ég strax rólegri. Auðvitað má Eiríkur segja það sem honum sýnist prívat og persónulega og á Facebooksíðu sinni. Sumum þykir kannski erfitt að taka mark á fögnuði Eiríks vegna náinnar vináttu Kalmans og Eiríks, en það er bara önnur saga. Sumir vita að Eiríkur meinar hvert orð og vita að hann vill bara bera út fagnaðarerindið, aðrir halda að Eiríkur sé að hrópa til að gera vin sínum greiða.

Af mínum heimvelli – hann er ekki lestarvagn heldur básinn minn á lestarstöðinni í Espergærde og húsið á Søbækvej: Ég ákvað að fara á fótboltaæfingu í gærkvöldi  þrátt fyrir að enn sætu eftirhreytur af flensunni í kroppnum á mér. Þjálfarinn hafði lagt ríka áherslu á að ég mætti (staða mín í liðinu er að veði). Þetta var hörð æfing á gervigrasinu og við spiluðum 5 á móti 5 þvert á hálfum velli. Mikil hlaup. Kroppurinn á mér var eiginlega ekki gíraður inn á að hlaupa í 90 mínútur í gær, því stóð ég á öndinni eiginlega alla æfinguna. En skoraði þó fjögur mörk, yo! (Það er viljinn til að hlaupa með upp í skyndisóknunum sem gefa mörkin.)

Í morgun klukkan átta var svo tennisleikur við Piu Geelmuyden. Öruggur sigur 6-1. Yo! Ég á svo bókaðan tennisleik við Thomas Dunk, duglega manninn, í kvöld. Ég er alger íþróttaálfur.

Myndin Toni Erdmann sem ég sá um daginn situr svolítið í mér. Mér þótti myndin ekkert ótrúlega góð en ég hef verið að hugsa um það síðustu daga hvað samband barna og foreldra getur verið furðulegt eftir að börnin verða fullorðin. Um það fjallar þessi kvikmynd. Nú á ég fullorðin börn og ég tek eftir því þegar fólk i kringum mig talar um samband sitt við foreldra sína. Oft er um að ræða vandamál sem enginn nefnir, engin setur í orð. Allt siglir áfram eins og allt sé í himnalagi, enginn segir neitt, en undirniðri ólgar reiði og pirringur og ég veit ekki hvað. Ég hugsa alltaf þegar ég heyri slíkt tal, æ, ég vona að ég sé ekki eða verði problem fyrir börnin mín. Þau mundu örugglega ekkert segja við mig, eða setja út mig, til að hryggja mig ekki. Maður vill börnunum sínum það besta en stundum er maður samt bara fyrir og til vandræða án þess að vita það.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.