Espergærde. Síðasta setningin

Ég hlustaði einu sinni á rithöfundinn John Irving tala um bækur sínar og hvernig þær yrðu til. Þetta var inni í stórum sal inni í Kaupmannahöfn. Hvert sæti var setið en ég var svo heppinn að sitja framarlega, svo framarlega að ég heyrði andardrátt skáldsins og fann lyktina af rakspíranum hans. Hann byrjaði dagskrána á því að skrifa þrjú orð upp á töflu á vegg fyrir aftan hann.  Hann lét orðin standa, virti þau fyrir sér og spurði svo hvort einhver vissi hvaða hann væri að gera. Hann dramatíseraði með löngum þögnum. Enginn gaf sig fram. „Þetta er,“ sagði hann, „byrjunin á síðustu setningunni í bókinni Last Night in Twisted River.“ Ég veit ekki afhverju hann skrifaði ekki alla setninguna. „Allar bækur mínar byrja með síðustu setningunni,“ útskýrði hann og benti upp á töfluna. „Ég vinn í þessari setningu í langan tíma þar til hún getur ekki orðið betri. Svo hefst ég handa við að skrá nákvæmt yfirlit yfir söguna, geri útdrátt, sem svo endar í þessari mikilvægu síðustu setningu. Það er ekki fyrr en  útdrátturinn er tilbúinn að ég get farið að skrifa söguna.“

John Irving, ameríski rithöfundurinn og sjarmatröllið, er mikill sögumaður og frábær á sviði. Hann sló í gegn með bókinn The World According to Garp fyrir mörgum árum en ég held bara að hann hafi aldrei verið útgefinn á Íslandi.

Á þessum fundi með John Irving talaði hann lengi og innilega um tilurð sögunnar, Last Night in Twisted River. „Ég er með þessa bók á heilanum,“ sagði hann. Það tók líka tuttugu ár frá því hugmyndin fæddist þar til bókin kom út. Hann vildi skrifa sögu um kokk og son hans sem eru neyddir til að vera á stöðugum flótta og enda í litlu útjaðarssamfélagi þar sem „eru ein lög og einn maður sem er einráður og vondur,“ eins og hann sagði. „En síðasta setningin kom bara ekki til mín, ég gat ekkert gert. Það liðu tuttugu ár og hugmyndin kraumaði í sífellu í hausnum á mér. Ég skrifaði aðrar bækur en þessi saga var alltaf inni í mér eins og óþægilegt suð,“ sagði Irving.  Og það liðu tuttugu ár.

„Svo var það dag einn að ég þurfti að fara til læknis og keyrði af stað í mínum gamla jálk. Þótt bíllinn sé gamall og ryðgaður er útvarpið ansi gott. Ég valdi útvarpsstöð og hlustaði á Bob Dylan syngja eitt af mínum gömlu uppáhaldslögum; Tangled up in Blue, á meðan ég brunaði í átt til læknastofunnar. Á einum stað syngur Dylan:

I had a job in the great north woods
Working as a cook for a spell
But I never did like it all that much
And one day the ax just fell.

Og þarna kom hún skyndilega til mín, setningin, eins og elding af himni,“ sagði rithöfundurinn. „Nú gat ég byrjað.“

Það var í gærkvöldi þegar ég sat einn niður í eldhúsi, allir farnir að sofa, enda flensa hér í húsinu, að ég fór að hugsa um þessa löngu liðnu dagskrá með Irving. Ég hafði verið úti að spila tennis á móti Thomasi, (svakaleg útreið sem ég fékk, 6-2 og 6-0). Ég var svangur, opnaði ísskápinn og góndi þangað inn til að finna eitthvað að borða en hafði ekki list á neinu þar. Settist aftur við borðið, íhugaði að fá mér kaffibolla en hafði heldur ekki list á því. Ég sat því bara í tennisbúningnum mínum við eldhúsborðið og góndi út í loftið og beið eftir því að verða fær um að fara sjálfur að sofa. En þarna í kvöldkyrrðinni í eldhúsinu – ég hafði kveikt ljós sem lýsti á blómin og trén í garðinum – varð mér hugsað um þessa dagskrá með Irving. Og ég reyndi að muna hver þessi síðasta setning hafði verið, þessi mikilvæga setning sem hafði tekið höfundinn tuttugu ár að finna. Ég gat bara alls ekki rifjað hana upp og ég man heldur ekki eftir orðunum þremur sem höfundurinn skrifaði á töfluna. Ég gat með engum móti rifjað þetta upp. Það brakaði í heilanum á mér og eftir að ég lagði mig undir sæng  átti ég erfitt með að sofna, því setningin leitaði svo á mig.

Nú í morgun gerði ég dauðaleit að bókinni, Last Night in Twisted River, en fann hana hvergi í mínu óskipulagða bókasafni. Ég leitaði á netinu að þessari síðustu setningu en fann ekki. Á endnum fór ég inn á danska bókasafnið á netinu, fann hljóðbókina á dönsku og hlustaði á lestur síðustu setningarinnar. Já, var hún svo ekki merkilegri?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.