Espergærde. Verðandi hjólasali?

Reiðhjólið mitt er enn uppi á skrifstofu, með hjólin uppi og sætið niðri. Svona hefur minn fagri fákur staðið, eða öllu heldur legið á bakinu, í hálft ár. Það er sprungið að aftan og ég er búinn að gera við slönguna, ég á bara eftir að koma henni á sinn stað inn í dekkið og pumpa. En ég geri það ekki og það er meðvituð ákvörðun. Ég vil heldur ganga. Alla mína tíð hef ég verið góður að gera við reiðhjól og sem barn rak ég hálfgert hjólaverkstæði í bílskúrnum heima. (Ég seldi líka lakkrís, poppkorn og fleira í þessum sama bílskúr því lífið er ein viðskipti, yo).

Í gær þurfti ég að hitta hjólasalan hérna í litla bænum mínum. Hann heitir Ralph, já með ph, eins og sýran. Hjólasalinn, Ralph,  rekur bæði hjólasölu og hjólaverkstæði. Þegar ég kem inn í búðina til hans vill hann endilega spjalla. Það eru sjaldnast margir viðskiptavinir í búðinni en búðin liggur í útkanti bæjarins í stórri skemmu og næstu nágrannar hans eru bílaverskstæði og járnsmiðjur og annar frekar subbulegur iðnaður. Rétt lengra niður götuna, við endann, stendur  svo hinn sígræni gervigrasvöllur fótboltafélagsins míns og hinir sex fótboltavellir Espergærde.

Ralph tók mér fagnandi þegar ég kom í gær, eins og alltaf. Mig vantaði ljós á hjólið hans Davíðs og lás á hjólið hans Núma. Ralph dansaði í kringum mig, malaði eins og köttur og kvartaði í vælutón um hvað fólk væri nú “ólojalt” að kaupa hjólin sín á netinu í stað þess að versla við innanbæjarshjólasala. Hann lítur ekki vel út hann Ralph, með punga undir augum og fremur óheilbrigðan líkamsvöxt. Ég sá að aðstoðarmaður hans var inni á verkstæðinu að dytta að hjóli. Hann veifaði til mín þegar ég sá að ég fylgdist með vinnu hans.

Svo segir Ralph allt í einu: „Heyrðu, hvað gerir þú, aftur?“
„Hvað ég geri?“
„Já… ég á að vita það … en við hvað vinnurðu aftur?“ spurði Ralph.
„Ég er auðnuleysingi, atvinnulaus,“ sagði ég.
„Nei, í alvöru, ég las um þig í dagblöðunum um daginn, hvað var það aftur?“
Ég þagði. Ég hafði engan áhuga á að ræða sölu forlags og framtíð mína við þennan þreytulega hjólasala.
„Jú, nú man ég,“ hrópaði hann svo. „Þú varst að selja bókaforlag. Margar milljónir!“
Ég glotti bara. Ég hafði bara engan áhuga á þessu samtalsefni.
„Ég er með frábæran fjárfestingarmöguleika fyrir þig. Þú kaupir sjoppuna hérna og ferð að selja hjól. Þú getur líka breytt skemmunni í dansstað. Ég fylgi ekki með í kaupunum en það gerir hann,“ sagði Ralph og benti á aðstoðarmann sinn sem stóð hokinn yfir reiðhjóli.
„Góð hugmynd,“ sagði ég en faldi kaldhæðnistóninn nógu vel til að Ralph varð óður og uppvægur. Hann fylgd imér alla leið út í bíl til að halda áfram samtalinu um reiðhólaverkstæðiskaupin.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.