Espergærde. Listi yfir afglöp

Númi, minn góði unglingur, spekúlerar mikið í framtíðinni, enda nýbyrjaður í menntaskóla. Hann veit ekki hvað hann ætlar sér í lífinu enda svo ungur. Allt breytist með hverju andartaki. En þegar ég fylgist með honum fóta sig í nýjum menntaskóla og hann virðist njóta þess svo mjög, hugsa ég um mína menntaskólatíð sem mér finnst hafa verið fullkomlega misheppnuð. Ég var ekki í nokkrum takti við neitt eða neina og sveif um sólkerfið án brautar, stjórnlaust og án stefnu. Ég sé eftir sumu án þess þó að vilja byrja upp á nýtt:

Listi yfir hluti sem kannski mættu hafa verið öðruvísi.
1) Að hafa ekki verið meira vakandi. Ekki að ég svaf lengi og mikið, hvorki sem barn né unglingur. Það gerði ég aldrei, enda fékk ég svo mikið samviskubit ef ég svaf lengur en til klukkan átta. Ég vildi bara að ég hafi verið ákveðnari og meðvitaðri um valmöguleika mína í lífinu þegar ég var ungur.

2) Ég hefði auðvitað átt að nota alla mína krafta í ungdómi mínum til að verða varnarmaður í fótbolta. Það er mín staða. Þá hefði ég endað með því að spila á Ítalíu við hlið Maldini. Yo!

3) Ég hefði átt að einbeita mér tölvuforritun til að verða góður tölvuforritari. Það er tungumál sem ég er áhugasamur um en er bara hálfgóður eins og í svo mörgum öðrum tungumálum. Ég hefði þá hitt Bill Gates, Steve Jobs, og Google-bræður á ráðstefnum. Við hefðum getað skiptst á skoðunum um fótboltaforritið mitt.

4) Ég hefði átt að leggja mig fram um að komast í kórinn í Hamrahlíð. Það hefði breytt miklu í lífi mínu. Ég hugsaði svo oft um það án þess að gera neitt. Menntaskólatilvera mín hefði orðið önnur og betri. Ég hefði líka lært að syngja.

5) Ég hefði átt að leggja mig meira fram í skólanum. Vera samviskusamari og vinna betur. Til dæmis í eðlisfræði, stærðfræði, náttúrufræði og efnafræði. Nú finnst mér þessar fræðigreinar mest spennandi af öllu, eða næstum því. Kannski hefði ég þá endað sem verkfræðingur og verið sá sem sá um að skipuleggja ferðir Coke-bílsins um Reykjavík. Reiknað út hvar hann hefði átt að byrja með að afferma gosflöskurnar og hvar hann hefði átt að enda ferð sína til að mestri hagkvæmni væri náð.

6) Ég hefði átt að spila í hljómsveit. Ég lærði á gítar í mörg ár og minnisstæðustu stundir gítarleiks míns voru þegar ég spilaði dúett með öðrum eða samspil með mörgum. Það var svo gaman þegar maður allt í einu fann swingið. Í hvaða hljómsveit hefði ég endað? Ég spái að ég hefði endað sem undirleikari í hljómsveit Paolo Conte.

7) Ég hefði átt að passa betur upp á allar ljósmyndir sem ég hef átt og hef tekið. Passa betur upp á sendibréf… Mér finnst ég muna of fátt og hefði ég gætt þessara gagna betur hefði ég kannski átt auðveldara með að halda minningum í hausnum.

8) Ég vildi að ég hefði lært að hafa meiri röð og reglu á hlutum. Ég er praktískur sveimhugi, ég er óskipulagður og ég læt tilfinningar drífa mig áfram. En hefði ég bæði náð að halda röð og reglu og nýtt kosti hinna tilfinningahlöðnu og óreiðukenndu afthafna sem einkenna allt mitt lífi hefði ég kannski náð einhverju öðru í lífinu.

9) Ég hefði átt að byrja að skrifa Kaktus-dagbók þegar ég var 5 ára. Í dag hefði ég átt uppdrátt að líf mínu, lýsingu á mínum ótalmörgu glappaskotum, og ég hefði verið miklu betri til að skrifa íslensku.

Svona get ég haldið áfram. Stopp.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.