Espergærde. Hausinn og hillurnar

Kominn á skrifstofuna og það er langt síðan ég hef unnið hér. Síðustu viku starfaði ég meira og minna heima í eldhúsi, gætti sjúklingsins á heimilinu og stýrði heiminum frá eldhúsborðinu. Nú hefur klukkunni verið ýtt klukkutíma aftur á bak hér í Danmörku og það er greinilegt þegar maður gengur til vinnu. Birtan er allt önnur.

Í morgun setti ég – skrifaði meira að segja niður – mér nýtt vinnuplan fyrir mánuðinn. Það er gífurlega metnaðarfullt og kannski dæmigert fyrir fugl eins og mig. Ég er alltaf yfirbjartsýnn, held að ég komist yfir um það bil sex sinnum meira en er raunhæft. En ég nýt þes að vera svona vitlaus og trúa svona blint á eigin afköst.

Annars fór ég í gær að lesa Handbók um hugarfar kúa, bók Bergsveins Birgissonar sem kom út árið 2009. Ég var búinn að gleyma henni en nú íhugar Politikens forlag að gefa hana út á dönsku og ég var fenginn til að lesa bókina fyrir þau. Mér finnst ótrúlega gaman að Bergsveini og get vel lesið hann aftur.

IMG_0632
Dæmi um hillumetra á heimili mínu.

Annars var ég að leita að bókinni um hugarfar kúa í gærdag, leit yfir bókasafnið mitt og ég fékk það staðfest að bókahillunum mínum svipar mjög til heilans í hausnum á mér. Ekki beint röð og regla. Ekkert nema fínstu hlutir bæði í hillunum og hausnum, bara ekki í röð og reglu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.