Espergærde. Hver er Ronald Koeman?

Morguninn hefur farið í tvennt. Lesa menningarsíðuna í breska dagblaðinu The Guardian og reyna að finna rétta vinnuhæð á skrifborðinu mínu.

Stundum get ég sökkt mér niður í greinar The Guardian, oftast um bækur, en stundum um fótbolta. Þetta eru þau tvö áhugamál sem ég eyði mestum tíma í. Ég verð auðvitað oft pirraður á sjálfum mér, eða kannski bara pínulítið önugur, yfir að nota tíma til að lesa um knattspyrnugreiningar, knattspyrnumenn, framkvæmdastjóra fótboltafélaga og allar þær vangaveltur sem fylgja heimi knattspyrnunnar. Þegar ég kem upp úr Guardian-kafinu, löðrandi í fréttum af fótbolta, finnst mér auðvitað þetta allt einskis vert, allt þetta fótboltatal. Ég hef til dæmis þróað hjá mér dálítinn áhuga á að vita hvernig persóna Ronald Koeman, fyrrum framkvæmdastjóri Everton er. Ég hef aldrei haft sérstakan áhuga á manninum en það vakti spurningar hjá mér þegar Kaldal talaði í einhverjum skilaboðum um „hrokagikkinn“ Koeman. Næsta dag las ég aðra frétt um Koeman þar sem einhver sagði um hann, eftir að hann var rekinn frá Everton, að „farið hefur fé betra“. Svo get ég fengið svona eitthvað á heilann. Hvernig maður er Koeman? Eins og það skipti einhverju máli fyrir líf mitt? Rugl. En í morgun las ég nokkrar greinar sem Guardian hefur gert að föstum dálki: Vinnudagur frægra rithöfunda. Það er ágæt lesning.

Hitt dund mitt í morgun var að finna rétta vinnuhæð á skrifborðinu mínu. (Það er rafmótor sem getur lyft borðinu upp og dregið það niður.) Mér finnst ég nefnilega vinna hraðar á eldhúsborðinu heima en hérna á skrifborðinu í vinnunni. Það er að segja ég skrifa hraðar á lyklaborðinu heima. Ég kenndi hæðarmuninum um. En í morgun eftir margvíslegar tilraunir með vinnuhæð hef ég komist að raun um að lyklaborðið á tölvunni heima er bara betra en hérna í vinnunni. Ég hef því ákveðið að setja nýtt lyklaborð á óskalistann minn því bráðum á ég afmæli og bráðum koma jól. Ég gæti líka óskað mér að einhver sameinaði jóla- og afmælisgjöf í einu nýju lyklaborði.

Á morgun á Davíð afmæli. Í dag á Palli afmæli. Bráðum eiga Númi og ég afmæli. Í gær átti Ezra Pound afmæli. Nóvember er afmælaðastur mánaða.

Nú er klukkan að verða tíu og ég hef ekki gert annað en að lesa Guardian, stilla hæð á skrifborði og skrifa í dagbókina. Ég á annríkt og get ekki leyft mér svona droll.

ps. Roanald Koman er sá varnarmaður í heiminum sem hefur skorað flest mörk að meðaltali í leik; 0,36 mörk að meðaltali.. Bara svona fróðleikur sem maður tileinkar sér í gegnum Koeman rannsóknir sínar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.