Espergærde. Orðaskipti mín við heiminn

Fyrsti nóvember og Davíð litli á afmæli. Hann er tólf ára í dag og afmælisdagar eru mikilvægir dagar þegar maður er tólf ára. Hann var glaður þegar hann vaknaði til afmælisdagsins síns… og alltaf fer ég að hugsa um glæpasögu Jón Halls, Krosstré þegar Davíð á afmæli. Fyrr í haust hafði ég lesið heila bók, Saklaust blóð eftir PD JAMES til að finna flott twist í bók. Eftir lestur þeirrar bókar fékk ég á tilfinningunni að ég hefði sóað tíma mínum. En það er sko flott twist í Krosstré; í rauninni eitt besta twist sem ég hef lesið. Ég hefði ekki þurft að leita lengra eftir góðum snúningi í söguþræði.

Í morgun vaknaði ég upp frá ansi góðum draumi. Ég mætti Torfa Tulinius á götu í Reykjavík. Sjálfur bar ég þrífót því ég var að leysa ljósmyndaverkefni fyrir Davíð, sem er áhugsamur ljósmyndari, en Torfi bar ekkert annað en bros sitt og gleði. Svipbjartari mann en Torfa er erfitt að finna í veröldinni. Ég er viss um að það sé fyrir einhverju góðu að dreyma svona mikla birtu á leið til ljósmyndaverkefnis.

Á göngu minni hingað til vinnu var mér hugsað til þess að inni mér keyrir allt á íslensku, eiginlega hélt ég að ég hugsaði meira á dönsku. Þegar í velti þessu nánar fyrir mér á göngunni hingað upp á skrifstofuna áttaði ég mig á því að stundum segi ég bara ekki eitt einasta orð frá því klukkan átta um morguninn til klukkan fimm um daginn, hvorki á dönsku, ensku né íslensku. Ég steinþegi. Ég hlusta á tónlist (nú er það Chet Baker). Helli mér upp á kaffi, horfi út í loftið. Vinn. Þýði bók yfir á íslensku. En allt þetta gerist án þess að ég gefi frá mér hið minnsta hljóð. Það er sjaldan hringt í mig, eiginlega aldrei. Og stundum er enginn á skrifstofunni; fólkið hér er oft með verkefni úti í bæ. Í gær átti ég til dæmis ein stutt orðaskipti allan daginn:

Það er bankað á dyrnar á skrifstofubyggingunni – við neyðumst til að læsa annars streymir fólk hingað inn því það heldur að þetta sé biðsalur fyrir lestina. Ég geng fram og opna dyrnar. Á tröppunum stendur feitlaginn maður, rétt yfir tvítugt og spyr formálalaust hvað sé inni í þessari byggingu. Ég spyr því bara til baka hver hann sé og hvert sé erindi hans.
„Er þetta eitthvað á vegum DSB?“ (DSB er lestarfyrirtækið hér í Danmörku) heldur hann áfram
„Nei, þessi bygging tengist DSB ekki á nokkurn hátt,“ svara ég.
„Hvað er þarna inni,“ spyr hann svo aftur.
„Skrifstofur,“ segi ég.
„Veist þú hvað er í gangi þarna inni?“
„Já, ég vinn hér. Ég meina… hvað viltu?“
„Nooo, ég held bara að ég kveðji.“
Og svo gekk hann sína leið, feitlagni maðurinn.
Þetta voru nú orðaskipti mín við veröldina í gær milli átta og fimm.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.