Espergærde. Föstudagsbar

Ég mætti seint á kontorinn í dag, jógamorgunn. Og ég geri jógaæfingar frá átta til hálftíu og þetta setur allt flowið í vinnudeginum í uppnám. Ég tilkynnti að vísu í morgun að ég megnaði ekki að mæta í jóga. Ég var á fótboltaæfingu í gærkvöldi (skorði aftur 4 mörk. Það mætti halda að ég væri markamaskína! Yo!) og það eru hlaup og slagsmál í 90 mínútur. Svo vaknar maður með helauman kropp. Svo auman að maður getur tæpast gengið óstuddur niður tröppurnar og niður í eldhús. Svo líða morgunmínúturnar. „Hæ, pabb,“ segir hinn nýkvaknaði Númi þegar hann kemur fram og virðir mig fyrir sér þar sem ég stend á nærbuxunum einum fata við kaffivélina og veit ekki hvort ég eigi að klæðast jógabúningi eða hinum borgaralegu klæðum. „Er ekki jóga hjá þér?“ spyr ungi maðurinn. Ég svara án þess að velta því frekar fyrir mér: „Jú. Það er jóga.“ Ég get ekki sýnt börnunum mínum að ég sé veiklundaður og geti ekki lagt á mig jógatíma að morgni.

Hér á skrifstofunni er stefnt á föstudagsbar í dag. Jesper Hvidbjerg (Monte Bianco) kemur með bjór, sagði hann í SMSi í morgun og Óli arkitekt er búinn að boða komu sína og sjálfur ég keypti nokkra fína bjóra í gær ef af föstudagsbar yrði. Svo hafa Lars og Pia boðað komu sína í kvöldmat heima hjá okkur, hamborgarakvöld. Maður verður víst að tala þegar barpiltarnir koma, ég sem sit þegjandi allan daginn, drekk kaffi, hlusta á músik, bora í nefið og vinn.

Allt bendir til að ég klára þýðingu mína um helgina og tekur þá næsta þýðing við. Ég kann bara vel við þetta líf með þýðingarnar. Ég afkasta miklu, þegar ég fæ frið fyrir öðrum verkefnum, ég spæni í gegnum bækurnar á gífulegu flugi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.