Espergærde. Bækur í vasabroti

Franski bókaútgefandinn Henri Filipacchi ákvað árið 1953 að hefja útgáfu á bókum í vasabroti, svokölluðum kiljum. Herferðin sem hann keyrði ansi hart í gjörvöllu Frakklandi sigldi undir kjörorðunum: „Maður getur ekki lifað án bókar í vasa.“ Árið 2015 seldust 100.000.000 vasabrotsbækur í Frakklandi og er þetta bókarform það vinsælasta í landinu. Meira að segja franski forsetinn Emmanuel Macron lætur ekki sitt eftir liggja í að útbreiða boðskapinn um að bóklestur efli land og þjóð, sálarstyk einstaklingsins og sé nauðsynlegur til að viðhalda háu menningarstig þjóðar.  Í síðustu yfirlýsingu forsetans sem ég las í dagblaði í vikunni segir franski forsetinn: „Ég les hvern dag. Mest á kvöldin og á nóttunni. Ef maður gleymir að lesa svindlar maður á sjálfum sér.“

Um þetta hugsaði ég þegar ég lá á koddanum í morgun og nennti ekki á fætur. Ég var óvenjulatur og það var fyrir löngu orðið bjart þegar ég loks vaknaði frá dagdraumum mínum og hringlaga hugsunum – var það ekki Hannes Hólmsteinn sem sagði að karlar hugsa í línu en konur í hring? – og dreif mig á fætur til að fagna nýjum degi. Yo! Ég hef komist að því á síðustu vikum, eða eftir að ég hætti að starfa sem forleggjari, að mér finnst ekkert eins skemmtilegt í heiminum og bækur. Ég hélt að ég mundi hella mér út í eitthvað allt annað (það getur svo sem enn vel verið að ég geri það). En ég les, skrifa, þýði og hugsa um bækur mestan hluta dagsins. Bækur og bókmenntir er það sem ég vil vinna við (en þó ekki sem forleggari). Dásamlegt.

Ég ætti að útbreiða þetta fagnaðarerindi undir slagorðinu: Maður getur ekki lifað án bókar í vasa. Sjálfur hef ég alltaf bók á mér og þegar ég held af stað í ferðalag er spurningin um hvaða bækur ég eigi að hafa meðferðis sú almikilvægasta. Númer 2 er: hef ég vegabréf meðferðis? Númer 3: Hef ég flugmiða meðferðist? Númer 4: á ég peninga til ferðast? 5. Eru allir með?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.