Espergærde. Staðan árið 1997.

Ég hef oft saknað þess að hafa ekki varðveitt betur þær myndir sem ég hef einhvern tíma átt úr lífi mínu. Ég held satt að segja að ég eigi ekki eina einustu mynd frá tímum Kodak-filmunnar. En í gærkvöldi fékk ég óvænta sendingu. Sem sagt hljóðlausa kvöldsendingu frá Einari Fal sem rifjaði ýmislegt upp fyrir mér. Ljósmyndir úr safni ljósmyndarans. Myndir sem hann tók í Bjartspartíi árið 1997 [20 ár síðan!) bárust hljóðlaust í gegnum eitt af þeim fjölmörgu rörum sem liggja á milli Íslands og Danmerkur.

Mér heyrist að fólki séu hugleiknar nætursendingar sem ég fékk aðfaranótt laugardagsins. Nokkrir hafa reynt að fá forvitni sinni svalað og spurt mig hver sendandinn sé (það hef ég ekki viljað gefa upp). Uppi hafa verið svo margar getgátur um hver hinn athafnasami nátthrafn sé, að ég neyðist til að gefa stutta yfirlýsingu til að lægja öldurnar: Sendandi er karlkyns (nokkrar getgátur voru um óánægða kvenrithöfunda), veit ekki aldur, en sendandi er ekki þekktur í bókmenntahópum Reykjavíkur. Nú geta menn róað sig. Ég held að næturpóstarnir hafi verið sendir í ölæði eða annarri áfengisvímu.

Svo fékk ég líka aðra kvöldsendingu. Sönglag sem mér var uppálagt að spila þegar ég mætti til vinnu í morgun. Fagnið! Góð byrjun á degi.

Falurinn gaf mér leyfi til að birta myndirnar sem eru hér að neðan.

1997 - 84
Fyrsta mynd: Hersveit hinna göfuglyndu. Þrír lífsglaðir piltar í partístuði árið 1997. Velgjörðarmenn forlagsins njóta veitinga i boði hússins.
1997 - 43
Önnur mynd: Lestarstjórinn og íþróttaálfurinn. Ég man alveg hvað Eiríkur var að segja mér þarna: „Mér finnst alveg frábært að pissa í sturtu,“ sagði Eiríkur. Á svipnum á íþróttaálfinum má bæði lesa vantrú og brennandi áhuga.
1997 - 91
Þriðja mynd: Þessa mynd tók ég af þremur Hölum pískra saman. Ég heyrði ekki hvað þeir voru að tala um. Maggi með dough-nut skegg lepur í sig speki Effa og Kaldal glottir að vitleysunni.
1997 - 50
Fjórða mynd: Lagt á ráðin. Hvernig vinnur maður Nóbelsverðlaun í bókmenntum? Tveir kandidatar ræða við útgefandann um taktík og strategíur. Þriðja auga Sjóns (sjá augað á löngutöng vinstri handar) laumast til að kíkja á brjóstin á mér.

 

1997 - 358
Fimmta mynd: Þorsteinn J. og íþróttaálfurinn taka til á skrifborði. Þarna er Þorsteinn ekki fluttur í Slippinn enda allt annað að sjá hann.
1997 - 37
Sjötta mynd: Bókasafnshjónin svokölluðu. Minnir mig á að Kristján B. skuldar mér tölvupóst.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.