Ég verð alltaf jafn glaður þegar mér berast póstsendingar. Ekki að ég geti ekki lifað án þeirra eða að líf mitt snúist um að að kíkja í póstkassann. Öðru nær. En sem sagt þegar ég kom heim frá vinnu í gær biðu mín tvö stór umslög í póstkassanum. Ég átti sannarlega erfitt að leyna gleði minni og hrópaði hátt einhvers konar fagnaðarhróp, svo hátt að nágranni minn Lars sem hafði verið að væflast fyrir utan húsið sitt, kom til mín til að sjá hvað hafði gerst.
„Er du OK?“
Já, ég var meira en OK. Umslögin reyndust geyma bækur frá íslenskum höfundum sem vildu gleðja mig. Ég varð sannarlega glaður. Eina bókina las ég strax í gærkvöldi, Stór olíuskip, ljóðabók eftir Jónas Reyni Gunnarsson. Þessi bók var verðlaunuð fyrir nokkrum vikum af sjálfum borgarstjóranum.
Þegar ég las í þessari fínu ljóðabók fór ég allt í einu að hugsa að á Íslandi væri kannski fæddur nýr skóli í ljóðlist. Mér finnst þeir svipa mjög til hvers annars (eða hvernig maður segir það), eða það er sameiginlegur keimur af ljóðum Jónasar Reynis, Ragnars Helga og Dags Hjartarsonar. Ég held að ég vilji kenna þennan skóla við ofgnógt af gáfum. Það er einhver sameiginlegur tónn sem hefur eitthvað gáfulegt yfir sér. Læra menn þetta í Ritlist í Háskólanum? Koma þeir ekki allir þaðan þessir þrír gáfudrengir? Mér finnst þetta mjög gott og ég er fullur aðdáunnar.
ps. Mig langar að lesa ljóðabók Bergþóru Snæbjörnsdóttur (hún er ekki dóttir mín).
pps. Stóru fréttirnar: Ég kláraði þýðinguna fyrir Palla í gærkvöldi. Það gafst algert tilefni til að skála! Yoho! Mín bíða fleiri þýðingar og ég byrja strax í dag á næstu.