Espergærde. Misskilningur leiðréttur

Hó!  Er nú langt á eftir áætlun með líf mitt. Enn einu sinni. Klukkan er meira en ellefu og það rýkur úr eyrunum á mér. Tölvan mín hefur verið að uppfæra einhver ósköp svo ég hef horft á lítið, lárétt strik mjakast upp í 100% síðasta klukkutímann. Það gengur hægt. Ég fékk nóg þegar ég var búinn að lesa og svara tölvupóstum á símanum mínum og greip því fartölvuna mína.

Í gær uppgötvaði ég ótrúlegan misskilning hjá mér, hinum gamla bókaref. Ég byrjaði á bók Friðgeirs Einarssonar, Formaður húsfélagsins, fyrir nokkrum vikum en svo gerðist eitthvað, ég lenti inni í annarri bók og svo enn annarri og gleymdi næstum bókinni hans Friðgeirs. En í gærkvöldi mundi ég eftir henni aftur og byrjaði að lesa. Ég hafði lesið 30 blaðsíður í því sem ég hélt að væri smásagnasafn þegar ég uppgötvaði að ég hafði í höndunum heila skáldsögu eftir þennan mikla leikhúsfrömuð. Það var eins og ég hefði verið sleginn útanundir þegar ég áttaði mig á þessum óttalega misskilningi. Já. En nú er hann leiðréttur og ég bruna í gegnum bók Friðgeirs. Hann hefur skemmtilega, lágmæltan tón, dálítið fyndinn en líka undarlega þungan. Ég hef gaman að honum. En þetta er ekki bók við alþýðuskap.

Mér finnst gaman að kynnast þessari nýju, öflugu kynslóð rithöfunda. Enginn af þeim sem ég hef lesið hefur enn skrifað bókina sem allir munu tala um en það er enginn vafi að það er ekki langt í það að sú bók komi fram.

Í kvöld er fótboltaæfing. Þjálfarinn hringdi í mig í gær og talaði um verkefni vetrarins og hugmyndir hans að spila nýtt kerfi. Ég verð á mínum stað í miðju varnarinnar í vetur, sagði hann, en við tökum Manchester City til fyrirmyndar. Hraður bolti, stuttar sendingar með jörðinni og mikið um framhlaup og krosshlaup. Gaman að þjálfarnum. Hann hugsar um fótbolta dag og nótt. Í morgun spilaði ég tennis, það er líka boltaleikur. Ég vil alltaf vera að leika mér, helst með bolta. Topp fínt.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.