Espergærde. H.C. Andersen sem aðalpersóna í glæpasögu

Í dag er þetta helst: Númi á afmæli og er 16 ára í dag. Ég var að vekja hann fyrir 2 mínútum. Ungi maðurinn var í veislu í gær eins og aðra helgardaga. Það eru mikil veisluhöld hjá menntaskólanemendum og hann er glaður. Honum finnst gaman að vera orðinn svo fullorðinn að hann geti verið í veislum fram á miðja nótt helgi eftir helgi. Mér finnst líka gaman að sjá hvað hann mannast.

Í gær var þetta helst: Jón Kalman kom í heimsókn hingað til Espergærdes, hann er auðvitað heimilisvanur hér enda hefur hann komið  ótalmörgum sinnum en alltaf er hann jafnáttavilltur. Kalman kom undir hádegi með lestinni og bankaði upp á á skrifstofunni þar sem ég sat með reykinn út úr eyrunum. Ég á annríkt, því miður. Þessu Politikens lista-kerfisaðlögunarferli ætlar bara aldrei að linna, ég er búinn að fá gersamlega nóg.

Það var óvenju hvasst á danskan mælikvarða. En við örkuðum af stað niður Mørdrupvej og niður á Strandvejen þar sem nýji bar/pizzeria/bjórstaðurinn hér í bænum hefur hreiðrað um sig. Þetta er stutt ganga, kannski tíu mínútur frá skrifstofunni.  Staðurinn er vinsæll á kvöldin, alltaf þéttsetinn en hádegisstemmingin var sérstök. Við Kalman sátum í hátt í fjóra klukkutíma yfir pizzu og bjór. Og vorum við einu gestirnir á þessum töffaralega stað allan þennan tíma, utan að eitt ungt kærustupar kíkti inn og fékk sér pizzu með hraði. En við tveir sátum, sötruðum okkar bjór og fylgdumst með sjö manna starfsliði (allir ítalir) borða látlaust og lét sér leiðiast. (Ekki skrýtið að þeir hafa bólgnað út starfsmennirnir síðustu vikur.)

Við Kalman ræddum margt, en auðvitað eyddum við drjúgum tíma í bókmenntir og bókmenntalíf á Íslandi, stöðu rithöfunda og bókaforlaga.  Á meðan við spjölluðum á ítalska barnum komu skilboð til Kalmans um að hann hefði fengið fimm stjörnudóm í MBL. Hann tók því með mikilli stillingu, eins og honum hefði verið tilkynnt að nýmjólkin hefði hækkað um 2 krónur í Bónus. Það virðist eins og stemmningin fyrir bók Kalmans sé ansi góð. Hann hefur góðan meðbyr drengurinn.

Nú sit ég í fyrsta sinn upp í stúku og fylgist með sölu bóka eftir nærri þrjátíu ár í bókabransanum. Ég er himinlifandi! Ég hef það gott í stúkunni og hef enga þörf fyrir að hlaupa inn á völlinn.

Ps. Í vikunni heyrði ég frá vini mínum einum sem er þekktur rithöfundur hér í Danmörku. Hann sagði mér frá því að hann og félagi hans séu að skrifa glæpasögu sem gerist á tímum H.C. Andersen,  á 19. öld. Sjálfur Hans Christian (d. 1875) er aðalpersóna sögunnar, og sá sem rannsakar alvarleg glæpamál í Kaupmannahöfn. Mér finnst þetta svo góð hugmynd. Mér finnst þetta svo brilliant. Ég var að velta því fyrir mér ef maður léki sama leik á Íslandi, hver væri þá hinn íslenski H.C. Andersen og rannsakaði íslenska glæpi. Nú getur einhver snjall rithöfundur stolið þessari hugmynd fyrir íslenska glæpasögu.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.