Espergærde. Amatörspæjarinn

Það er svolítið fyndið að þegar maður hefur unnið með bækur í milljón ár gleymir maður stundum að 99% af heiminum er ekki sérstaklega áhugasamur um bókmenntir. Mér fannst til dæmis skemmtileg hugmynd félaga míns um að skrifa krimma með H.C. Andersen sem amatörspæjara í höfuðhlutverki. Svo fór ég að hugsa nánar um þetta á göngu minni meðfram ökrunum hérna fyrir utan bæinn í gær. Ég fór reyndar aftur forleggjaragírinn. Reyndi að átta mig á fyrir hvern slík bók væri. Ég komst að raun um að það eru sennilega óskaplega fáir í heiminum sem kveikja á svona hugmynd.

Svo var ég á leið á tennisæfingu með Lars nágranna mínum. Hann les bækur af og til, oftast þegar hann er í sumarfríi. Uppáhaldsbækur hans eru glæpasögur Jo Nesbø. Hann er kannski dæmigerður bókakaupandi. Kaupir 2-3 bækur og les kannski 5 bækur á ári. Ég segi við Lars:
„Lars. Mundir þú vera áhugasamur um bók með H.C. Andersen í aðalhlutverki. Þetta væri söguleg skáldsaga, öll söguleg umgjörð væri rétt, en H.C. Andersen hefði í þessari bók fengið áhuga á að vera spæjari og gengi nú um Kaupmannahöfn 19. aldar og reyndi að þefa uppi illvirki og illvirkja?“

Lars sat undir stýri í sínum svarta BMW, ég í farþegasætinu við hliðina á honum og útvarpið var í gangi. Hann er alltaf með popptónlist keyrandi, bæði heima og í bílnum (og stundum undra ég mig á að hann geti haft þetta látlausa bakgrunnssuð undir öllu sínu lífi.) Hann leit á mig til að reyna að skilja spurninguna.
„Er þessi bók til?“
„Nei.“
„Er þetta eitthvað sem þú ert að fara skrifa, eða …?“
„Nei, nei. Vinur minn er að skrifa þessa bók.“
„Nei. Mér finnst þetta skrýtið. Var H.C. Andersen ekki hálfundarlegur maður?“
„Jú. Hann var ansi sérstakur og að mér skilst hundleiðinlegur gaur.“
„Nei. Ég myndi aldrei kaupa svona bók eða lesa. Ef ég læsi baksíðutexta með þessari lýsingu mundi ég leggja bókina frá mér. Mér finnst þetta bara einhver fíflagangur.“

Þetta datt mér í hug.

Það er ekkert sérstakt í gangi í dag. Það er sunnudagur, hvíldardagur, eins og sumir kalla daginn. Ég ætla út á eftir. Ég er enn að keppa við Jón Kaldal í svokallaðri fibit-keppni. Við erum báðir með fitbit teljara á okkur og svo sér maður á símanum sínum hver hefur hreyft sig meira. Nú er ég í forystu – eins og oft áður 😉  – en ég finn fyrir andardrætti Kaldals í hnakkanum á mér. Hann nennir ekki að hafa mig fyrir ofan sig og ég nenni ekki að hafa hann fyrir ofan mig. Staðan á þessu augnabliki:
ÉG:            81.954 skref síðustu 7 daga.
KALDAL:  81.501 skref síðustu 7 daga.
Ég má ekki setjast niður eitt augnablik svo er hann kominn framúr. Þetta er gífurleg pressa. Ég þarf stundum, áður en ég fer að sofa, að taka aukagöngurtúr innanhúss til að tryggja forystu. Svo kem ég upp í rúm móður og másandi eftir að hafa hlaupið um íbúðina. Sus er alltaf jafnundarandi þar sem hún liggur upp í rúmi er að lesa og ég kem andstuttur og hálfsveittur.
„Hvað? Afhverju ertu svona móður?“
„Æ, Kaldal er að ná mér.“
„O, my God!“

Nú hef ég setið í hálftíma og skrifað þessa dagbók og ég finn fyrir Kaldal á fullri ferð rétt fyrir aftan mig. En ég gef mig ekki; er á leiðinni út. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.