Ég var úti að slá gras í gær. Að hugsa sér að maður sé að slá blettinn í miðjum nóvember. Nóvember er vetrarmánuður. Þetta er furðulegt. Á meðan ég puðaðist við að komast í gegnum grasið með sláttuvélinni minni fékk ég sms frá börnunum mínum sem voru að leika sér með börnunum sínum úti í snjónum í Reykjavík. Ekki vil ég skipta. Frekar vil ég slá gras en að vaða ískaldan snjó á gönguferðum mínum.
Ég kláraði að lesa skáldsögu Friðgeirs Einarssonar í gær, Formaður húsfélagins. Mér fannst bókin fremur skemmtileg þótt ég satt að segja fattaði ekki alveg pointið með bókinni. Þetta er fín, lágstemmd frásögn af fremur lánlitlum, ungum manni. Íbúa í blokkaríbúð í Reykjavík. Eða er þetta ekki Reykjavík? Það er eitthvað fremur þroskað við sögurödd Friðgeirs. Ég kann vel við tóninn og þennan undirfurðulega húmor.
Jón Kalman færði mér bók Bergþóru Snæbjörnsdóttur á föstudaginn, Flórída. Kannski að hún verði næsta bók á dagskrá minni. Annars las ég að Steinar Bragi, sem er rithöfundur, hafi sagt að þessi bók fjallaði um kokteilsósu og franskan rakspíra og taldi það bókinni til hróss. Ég fældist pínulítið við þessa umsögn, fannst þetta eitthvað tilgerðarlegt. En ég læt mig hafa það.