Espergærde. Stórkostlegt sölutrikk fyrir Ólaf Jóhann

Nú les ég bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Sakramentið. Ég tek eftir að Manhattanskáldið er skyndilega orðið allsýnilegt í íslenskum fjölmiðlum. Það er auðvitað eðlileg afleiðing af því að bók hans var nýlega skipað upp úr farmskipi eftir langt ferðalag frá finnskri prentsmiðju og liggur nú í góðum sölubunkum í bókabúðum landsins.

Ég fór seint að sofa í nótt. Lá upp í rúmi og las bók Ólafs Jóhanns á meðan aðrir sváfu. Mér varð hugsað til þeirra skipta þegar ég hef hitt skáldið í New York sem þá, eins og alltaf, var ekkert nema elskulegheitin og hjálpsemin. Við höfum nokkrum sinnum spilað saman innanhússfótbolta á einhverri hæð í háhýsi á Manhattan. Það er gaman. Ólafur Jóhann er keppnismaður.

Ég veit ekki afhverju ég fór skyndilega að hugsa um þetta í myrkrinu, undir minni hlýju sæng, en mér datt í hug stórkostlegt sölutrikk fyrir Ólaf Jóhann. Það er byggt á furðulegu, 90 ára gömlu uppátæki Agöthu Christie.

Þann 3. desember árið 1926 hvarf frú Agatha Christie. Hún var 36 ára gömul og orðin nokkuð þekktur rithöfundur í Englandi. Hún hafði þá skömmu áður sent frá sér sína sjöundu bók, The Murder of Roger Ackroyd. Bíllinn hennar fannst við stöðuvatn og í bílnum var handtaska með skilríkjum höfundarins (að vísu voru skilríkin útrunnin). Hvarfið vakti gífurlega athygli og leituðu meira en 15.000 sjálfboðaliðar að Agöthu. Leitarhundar voru kallaðir til og flogið var yfir svæðið þar sem bíllinn hafði fundist. Hvorki fannst tangur né tetur af skáldkonu.

Þar sem svo skammt var liðið frá útgáfu bókar hennar um morðið á Roger Ackoyd fór fljótlega að bera á efasemdaröddum í fjölmiðlum og meðal leitarmanna. Var skáldið að vekja athygli á bók sinni? Gat verið að hún gengi svo langt í markaðssetningu bókar að hún léti sig hverfa til að fá athygli? Eitt er víst að henni tókst heldur betur að fanga áhuga fjölmiðla. Þetta er nokkuð gott sölutrikk.

Sennilegri skýring á hvarfi glæpadrottningarinnar er þó önnur. Agatha Christie var gift afthafnamanninum Archie Christie. Skömmu fyrir hvarfið hafði Agatha komist að því að eiginmaðurinn átti í ástarsambandi við unga konu, Nancy Neele, og hafði skipulagt helgarferð með ástkonunni (sem þó ekkert varð úr vegna hvarfs eiginkonunnar).

Dagar liðu og ekkert bólaði á rithöfundinum og bárust nú böndin að Archie, eiginmanninum. Gæti verið að hann hafi viljað ryðja konu sinni úr vegi til að geta óhindrað leikið sér með ástkonu sinni? Miklar getgátur voru á lofti og á meðan seldist bók Agöthu Christie eins og heitar lummur. Archie var kallaður til yfirheyrslu (undir vökulu auga enskra fjölmiðla) og lá undir sterkum grun um að hafa átt þátt í hvarfi konu sinnar.

Agatha lagði sig hins vegar ekki sérstaklega mikið fram um að dyljast. Hún hafði bókað herbergi á hóteli í Yorkshire, Old Swan Hotel undir nafninu Theresa Neele. (Skemmtilegt að hún velur eftirnafn ástkonu eiginmannsins.) Á hótelinu gerði Agatha ekkert til að dulbúast. Hún lá við sundlaugarbakkann, drakk gin og tónik, las dagblöðin og fylgdist með leitinni að sjálfri sér. Hún hafði meðferðs bók Dorothy L. Sayers, Clouds of Witness, sem útgefandi hennar hafði einmitt sent henni daginn sem hún lét sig hverfa.

11 dögum eftir hvarf Agöthu var hringt í lögregluna. Tveir meðlimir hótelhljómsveitarinnar á Old Swan hótelinu í Yorkshire báru kennsl á andlit skáldkonunnar og hringdu í lögregluna. Archie hafði sama dag enn á ný verið kallaður til yfirheyrslu og hafði nú haldið því fram að kona hans þjáðist af minnisleysi og ætti það til að fá minnisleysisköst. Lögreglunni þótti skýringin svo fráleit að uppi voru vangaveltur meðal lögreglunnar um að hneppa hann í gæsluvarðhald. Þegar tilkynning kom um fund skáldkonunnar á hótelinu var Archie látinn fylgja lögreglunni til að bera kennsl á konu sína. Þeir biðu hennar í móttöku hótelsins. Eftir nokkra bið kom skáldkonan gangandi niður teppalagðar tröppur hótelsins á leið í kvöldmat. Hún greip með sér síðdegisblaðið, þar sem enn var fjallað um hvarfið á leið inn í matsalinn. Þegar lögreglan og eiginmaðurinn stöðvuðu hana, rétti hún fram höndina í átt að eiginmanni sínum og kynnti sig.
„Gott kvöld, Theresa Neele. Fröken Theresa Neele.“

Tveimur árum síðar skildu þau hjónin og Archie giftist hjákonu sinni, Nancy Neele.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.