Espergærde. Afmælismorgunn og staða höfunda innan bókmenntahópa.

Ég á afmæli í dag. Mér finnst gaman að vera afmælisbarn dagsins. Skemmtilegast finnst mér þegar ég fæ kveðjur og fólk man eftir mér. Ég er ekki maður sviðsljóssins en mér þykir samt gott að finna að fólk beinir góðvild sinni að mér.

Ég var kominn á fætur klukkan tíu mínútur yfir sex. Númi hafði sofið upp í menntaskólanum því þar var einhvers konar teambuilding sem hann varð að taka þátt í. Ég var fljótur að gera mig kláran og rölti af stað í myrkrinu til bakarans niður við höfnina. Þetta er ekki löng ganga, það tekur mig kannski 10 mínútur að ganga leiðina til bakarans. Þótt himinn væri heiður og boðaði góðviðri í dag – kannski í tilefni dagsins – var aldimmt og mannautt á göngustígunum í morgun. Ég mætti þó fáeinum syfjuðum hundaeigendum úti með hunda sína sem bæði þurftu að pissa og kúka. Þeir, ekki hundarnir heldur hundaeigendurnir, óskuðu mér góðs dags með sínum morgunrámu röddum. Ég svaraði í sömu mynt en sagði þeim ekki að ég ætti afmæli þótt mig dauðlangaði til þess.

Í bakaríinu var bakarinn í hátíðarskapi, söng þegar hann tók rjúkandi brauð út úr ofninum. Ég var eini viðskiptavinurinn svo söngurinn var í fyrstu bara fyrir mig og hann sjálfan. Hann lagði sig fram um að syngja vel, dró tónana á langinn og skrúfaði svo upp raddstyrkin þegar ung, falleg kona kom brosandi inn úr myrkrinu til að eiga viðskipti við bakarann.

Mín biðu afmælisgjafir á afmælisborðinu þegar ég kom til baka frá bakaranum. Lesgleraugu, (ég er alltaf að týna gleraugunum mínum), bók! (Judas, eftir Amos Oz). Það er langt síðan ég hef fengið bók í afmælisgjöf. Þetta eru nýir tímar, nú er maður ekki lengur bókaútgefandi og því er í lagi að gefa manni bækur í afmælisgjöf. En bók Amos Oz hafði ég margoft talað um og tilkynnt öllum sem heyra vildu að ég ætlaði að næla mér í hana. Nú þarf ég þess ekki því nú bíður hún mín á borðinu við hlið lesstólsins míns. Ég hlakka til að lesa hana. Og svo fékk ég mínar lakkríspípur. Ég er sólginn í lakkríspípur en leyfi mér bara að borða þær við hátíðleg tilefni.

Ég les bók Ólaf Jóhann Ólafssonar, Sakramenti, þessa dagana. Ég læt ekki pólitíska stöðu Ólafs Jóhanns á íslenskum bókamarkaði trufla mig við lesturinn. Ég gef skít í allar þær klisjur sem fylgja því hverjir eru inni og úti í bókmenntahópum á Íslandi. Ólafur Jóhann hefur aldrei notið sannmælis, hvort sem fólki finnst hann góður eða slæmur höfundur, því hann er alltaf annars vegar tengdur Vöku – Helgafelli (sem aldrei hefur þótt sérlega góður bókmenntastimpill) og hins vegar er hann sonur föður síns til góðs og ills.

dagbók

Ein athugasemd við “Espergærde. Afmælismorgunn og staða höfunda innan bókmenntahópa.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.