Espergærde. Sílikongoggur.

Afmælisdagurinn minn er liðinn og nú bíð ég 364 daga eftir að næsti afmælisdagur renni upp. Það er gaman að eiga afmæli og það var gaman að fá kveðjur frá góðu fólki. Bestu kveðjurnar komu beint til mín í gegnum bréf eða SMS. Næst komu facebook-kveðjur. Þótt þær séu góðar, facebookkveðjurnar,  eru þær ekki jafngóðar og öll löngu og fínu afmælisbréfin.

Ég spilaði tennis í morgun og því er ég strax kominn aftur úr dagsáætlun minni. Ég reyni því að gera tvennt í einu. Eftir að hafa speed þvegið mér í sturtunni í morgun að loknum tennisleiknum, þaut ég af stað. Út. Kroppurinn á mér var allur brennandi heitur eftir baðið. Ég arkaði af stað út í frostið til að flýta mér í vinnuna, með blautt hár og sjóðandi kropp. Greip fram ljóðabók Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Flórída, til að gera tvennt í einu; lesa og ganga. Ég var eins og eimreið á fleygiferð eftir Søbækvej. Gufan stóð upp af brennheitum líkamanum í frostinu.  Ég sá að nágranni minn á horninu, sem var að stíga inn í bíl sinn, hikaði örlitla stund við sjónina af þessum  manni með eimský aftur úr sér, á fullri ferð með ljóðabók í hönd.

Þótt ég reyndi að einbeita mér að lestrinum hélt ég uppi allgóðum gönguhraða. Fyrsti hluti ljóðabókarinnar hennar Berþóru heitir Flórída og fjallar um óvenjulega sjötuga konu með sílíkóngogg og litað, svart hár. Allur sá heimur  sem Bergþóra byggir upp í fyrsta hluta bókar sinnar minnti mig svo á Matrix kvikmyndina. Ég veit ekki afhverju, en mér kom sífellt í hug þessi kvikmynd sem ég hef ekki haft neinar mætur á. Myndheimur ljóðskáldsins kallaði bara fram myndir úr Matrix.

En skandall morgunsins var að ég hafði ekki áttað mig á að ég kemst ekki á fótboltaæfingu í kvöld. Ég hafði hlakkað til. Við erum að fara á tónleika í kvöld og ekki get ég gert Sus það að taka fótboltaæfinguna fram yfir tónleikana. Ég hringdi í þjálfarann áðan til að segja honum að ég kæmist ekki á æfinguna í kvöld. Það var löng þögn á hinum enda línunnar og svo kom ægilegt vein.

„Djöfullinn, Zlatan. Æ. Nei. Þetta getur ekki verið rétt? Tónleikar?“
„Já… “ sagði ég aumingjalega og ætlað að bæta einhverju mildandi við, en þjálfarinn greip orðið.
„Hlustaðu nú, Zlatan. Æfingin í síðustu viku var toppgóð. Ég var búinn að skipuleggja æfinguna í kvöld. Byggja á því sama og síðast. Og þú áttir að vera í aðalhlutverki, þannig… það varst þú sem ég sá fyrir mér bera boltann upp frá markmanninum og byggja upp spilið úr vörninni… Djöfullinn, við getum ekki notað Max í það… Þetta riðlar öllu…
„Já, en …“
„Ég finn upp á einhverju öðru, góða skemmtun.“ Og svo lagði hann á.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.