Espergærde. Að berjast fyrir fyrirgefningunni

Ég var í jóga í morgun. Það er pína fyrir mig. Þótt ég viti hvað jóga er gott fyrir minn stífa fótboltakropp leiðist mér. Mér leiðist og tek eftir því að ég hugsa ítrekað hvað klukkan sé. Hve langt sé eftir af þessari angist og þessum sársauka.

Í morgun mætti Sebastian í fyrsta skipti. Sebastian er langintes og hann hef ég þekkt lengi, hann spilar tennis og er hönnuður (lampar, kertastjakar, hnífar…) Hann hefur alltaf hallað sér að allskonar andlegu dóti. Ég veit að hann fer einu sinni á ári eitthvert upp til Norður-Svíþjóðar til að þegja í 10 daga með hópi annarra, sem eru bræður og systur hans í anda. Hann sagði mér að hann hefði verið fyrir um það bil ári á vikunámskeiði um fyrirgefningu. Að læra að fyrirgefa  –  kannski ég hefði gott af slíku námskeiði; ég berst daglega við fyrirgefninguna. Eftir sjö daga með áköfum fyrirgefningaræfingum, í þetta skiptið í gömlu klaustri í Suður-Frakkalandi, gerðist það að Sebastian, sem venjulega er stirðbusi og nær með fingurbroddunum rétt niður fyrir hné þegar hann beygir sig fram með beinar fætur, gat beygt sig svo langt niður að höfuðið nánast snerti gólfið. Hann gat beygt sig í duftið. Þetta gerðist fyrir um það bil ári. Og nú í jóga virðist öll fyrirgefning hafa yfirgefið kroppinn hans því hann var jafnstífur og fyrr. Hendurnar náðu rétt niður fyrir hné. Það er nú meiri baráttan að halda fyrirgefningunni í kroppnum.

Í gærkvöldi fór ég á tónleika inn í Helsingør. Þetta voru sitjandi tónleikar með söngkonunni Sine Svendsen. Sine er nokkuð þekkt hér í Danmörku. Hún spilar á gítar og syngur, er sjarmerandi og er nokkuð góður tónlistarmaður. Það var uppselt á tónleikana. Salurinn var ekki sérlega stór og allir sátu við borð á meðan tónleikarnir fóru fram. Svolítið dönsk stemmning, bjór og rauðvín undir tónleikum.

Ég fór að hugsa þegar ég hlustaði á Sine í gærkvöldi, hvað litlar sögur eru mikilvægar til að skemmta fólki. Bara sögur af litlum, þannig séð ómerkilegum atvikum úr hversdeginum fékk áheyrendur til að sperra eyrun. Frásagnir Sine um það þegar hún keypti fyrsta rafmagnsgítarinn sinn, sagan af litla bróður hennar sem hafði eignast kærustu, saga af söngkonunni sitja við hlið dóttur sinnar að horfa á sjónvarpsþátt um að baka kökur. Allar þessar litlu sögur bæði skemmtu áheyrendum, mögnuðu stemmninguna og áheyrendum fannst allt í einu að þeir ættu hlutdeild í lífi söngkonunnar.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.