Ég kláraði að lesa yfir þýðingu mína í gær og byrjaði líka á næsta verkefni. Nú hef ég tvö verkefni sem ég þarf að vinna að á hverjum degi. Seinni hluti dags fer í nýja þýðingu sem ég á að skila fyrir sumarbókamarkaðinn. Fyrri hluti dags fer í verkefni sem ég hef unnið að í nokkrar vikur en hef ekki getað gefið svo mikinn gaum vegna vinnu minnar fyrir Politikens forlag. Ég vona að ég þurfi ekki að vinna meira fyrir Politiken; nú sé þeim langa kafla lokið.
Ég fékk bréf frá Ugga Jónssyni í fyrradag sem gladdi mig mjög mikið. Uggi minn gamli yfirlesari hjá Bjarti hefur ótrúlega fallegan tón í sendibréfum sínum. Hann ætti að skrifa fleiri sendibréf, það myndi gleðja marga að fá slíkar sendingar.
Það er laugardagsmorgun og ég hafði ætlað mér út að ganga meðfram ökrunum hérna sunnan við bæinn en það hellirignir. Ég bíð af mér regnið og sest inn í lesstólinn minn og les þar til sólin fer aftur að skína.
Ég heyri af hremmingum á Íslandi vegna þess að erfitt er að prenta þar bækur. Oddi er hættur bókaprentun og almennt er prentverk svo miklu ódýrara í Eystrasaltslöndunum en á Íslandi að þótt bækur þurfi að sigla dögum saman í skipi til landsins, borgar það sig samt. En ég er þó hissa að ljóðabókaprentun sé líka flutt til útlanda. Prentun á ljóðabókum er hlutfallslega dýr, það er að segja prentverð á hverja bók er hátt vegna þess hve upplag ljóðabóka er lítið. En slík prentun hefur þó alltaf verið á samkeppnishæfu verði á Íslandi. Þetta er auðvitað skelfilegt ástand að menn þurfa að leita til útlanda til að prenta bækur. Menningarsjálfstæði þjóðarinnar er í hættu eins og Ragnar Helgi Ólafsson ljóðabókahöfundur sagði glottandi einhvers staðar.