Espergærde. Ljóðabókaprentvélin frá Heidelberg

Klukkan var 5:25 þegar ég vaknaði í morgun og gat með engu móti sofnað aftur. Ég hugsaði með mér að ég gæti bara mætt í morgunbæn hjá nunnunum sem búa hér í klaustri suður af húsinu mínu. Þær hefja morgunbæn klukkan 5:30. Þær kjósa morgunfriðinn til bænahalds. Þótt ég hefði örugglega haft gott af bænastund lá ég hins vegar bara kyrr undir sænginni minni án þess að biðja.

Það hvarflaði allt í einu að mér í morgundimmunni að sennilega væri Pétur Már, útgefandinn og markaðsmaðurinn, bæði að stela og betrumbæta hugmyndina mína um hvarf skálds á jólamarkaði. Hann útfærði hugmyndina ansi vel þegar hann lét tvær ljóðabækur hverfa á leið sinni milli Eistlands og Sundahafnar.  Í stað þess að láta skáldið Ólaf Jóhann hverfa eins og ég stakk upp á lét hann ljóðabækur tveggja Ólafssona (ekki sona Ólafs Jóhanns, og ekki sona sama Ólafs) Braga og Ragnars Helga gufa upp út á reginhafi og gerði sér mat úr því. Ljóðabækurnar fundust jafnskjótt og bókahvarfið hafði vakið mesta mögulega athygli. Hann er sannur markaðsgaur hann Pétur Már.

Annars virðist ég hafa svo miklar áhyggjur af stöðu prentiðnaðarins á Íslandi að mig dreymdi í nótt að ég hefði stofnað litla ljóðabókaprentsmiðju í kjallaranum á Bræðraborgarstígnum. Ég hafði fengið í félag við mig tvo Tómasa. Thomas Delaney, sem er fótboltamaður hjá þýska knattspyrnufélaginu Werder Bremen og Tomas Christiansen, nýráðinn framkvæmdastjóri fótboltafélagsins Leeds United. Við höfðum keypt svona aldeilis fallega, litla prentvél af gerðinni Heidelberg.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.