Espergærde. Stílabækur ókunnugra

Í gær fann ég stílabók (eins og ég hef sagt frá) sem var eins og ný, að mestu ónotuð. Ég hélt að ég sjálfur ætti hana, að ég hefði keypt hana einhvers staðar, þá sennilega í bókabúð. Að kaupa minnisbækur er góð skemmtun og ég tel mér alltaf trú um að ef ég hafi minnisbókina til taks (og skriffæri) geti ég náð að skipuleggja líf mitt betur. Að lífið verði aðeins línulegra, ég veit svo sem ekki afhverju það er eftirsóknarvert, en það er eitthvað róandi við tilhugsunina um skipulegt líf.

Í gær þegar ég tók stílabókina í notkun sá ég að þetta var ekki mín bók. Einhver hafði skrifað í hana. Ég þekkti ekki skriftina. Hún var að minnsta kosti ekki mín.

Ég hef áður fundið stílabók  – það var lítil minnisbók sem maður getur stungið í brjóstvasa hafi maður brjóstvasa – en bókina fann ég á skrifstofunni minni á Bræðraborgarstíg fyrir nokkrum árum. Það hafði verið smáveisla á forlaginu kvöldið áður og næsta morgun byrjaði ég daginn á að taka til; safna saman flöskum og glösum, þvo notuð áhöld og skálar. Mitt í öllu havaríinu á skrifstofunni lá svo þessi minnisbók og ég tók hana upp og blaðaði í henni til að sjá hvort ég gæti komist að því hver væri eigandi minnisblokkarinnar.

Ég gat með engu móti fundið út úr því hver gæti hafa gleymt bókinni þarna, mitt á milli glasa og öskubakka. Engar vísbendingar voru í bókinni um eiganda, en það kom mér á óvart að bókin innihélt margvíslegar lýsingar á kynlífi, samförum fólks sem ég kannski þekkti. Eða að minnsta kosti hafði ég verið í veislu með höfundi minnipunktanna kvöldið áður. Þetta voru að mestu lýsingar á áformum um kynlífsathafnir og nýafstöðnum samförum. Ég geymdi bókina á góðum stað í nokkurn tíma ef eigandinn gæfi sig fram. En það gerði aldrei neinn tilkall til bókarinnar svo hún bara gufaði upp. Ég man ekki hvað ég gerði við hana, kannski er hún enn á Bræðraborgarstígnum og núverandi leigjendur geta gluggað í hana.

En aftur að stílabókinni sem ég tók í gagnið í gær, sú bók er miklu stærri og kæmist aldrei í vasa. En sem sagt mitt í stílabókinni – undarlegur staður til að vígja nýja stílabók – hafði einhver skrifað með rauðum blekpenna. Mér fannst skriftin frekar kvenleg og ekki er þetta skrift Sus, hana þekki ég. Í bókinni stendur:

„Morgunmatur á veitingahúsi. Hér sitja þrír karlmenn í kringum hringlaga borð. Þeir drekka kaffi úr stórum bollum, einn þeirra hefur pantað egg og beikon. Milli speglanna á veggjunum eru litríkar myndir af kaffitorgum og fallegum húsaröðum.
Dagblað liggur á borðinu. Á forsíðunni er mynd af ráðherra og undir myndinni er fyrirsögn: Mundir þú vilja sofa hjá þessum manni?
Lýsingarnar á manninum, sem ýmist er kallaður Rækjan eða Dvergurinn, eru ófagrar. Þær hafa verið endurteknar svo oft á undanförnum dögum að þær vekja engin hughrif lengur. Dagblaðið bryddar upp á þeirri nýjung að bjóða upp á lítinn leik;  SMS-kosningu. Vildir þú sofa hjá þessum manni? (Mynd af ráðherranum) Ef já sendu þá SMS 1234, ef nei sendu SMS á 1244.

Næsta morgun lá sama dagblað í blaðarekka veitingahússins og við mér blasti fyrirsögnin:
804 Íslendingar vilja í bólið með Rækjunni.

dagbók

2 athugasemdir við “Espergærde. Stílabækur ókunnugra

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.