Skilgreining á geðveiki hljómar einhvern veginn svona: Maður gerir alltaf það sama og er sannfærður um að það leiði til mismunandi niðurstöðu.
Hmm. Geri ég alltaf það sama? Er ég fastur í minni litlu hringekju og sannfærður um að ég lendi annars staðar en síðast þegar ég tók hringinn?
Sem betur fer fyrir mig held ég þessa líka fínu dagbók. Hún heitir Kaktusinn. Ég get flett upp á sama degi fyrir ári: 24. nóvember 2016 og séð hvað var þá í gangi? Var ég staddur á skrifstofu í Espergærde? Nei. Ég var staddur í París, sem er borg í Frakklandi, og þennan dag átti ég stefnumót við mann. Í ljós kom að maðurinn hét Wayne Rooney. Í færslunni segi ég meðal annars:
„Fyrsta stefnumótið í Frakklandi, París, borginni sem ilmar af hveitibrauði. Klukkan níu átti ég von á manni sem ég hafði skipulagt fund með og það hafði bæði tekið langan tíma og mikla orku. Nú var komið að því og klukkan fjórar mínútur í níu setti ég punkt fyrir aftan færslu gærdagsins og lokaði Kaktus-dagbókinni. Ég fór inn í eldhús og kveikti á kaffivélinni, fann kaffiduft og tók fram bolla. Klukkan sló níu. Aftur settist ég við tölvuna, las tölvupósta. Svaraði nokkrum þeirra. Stóð upp og leit út um gluggann. Ekkert bólaði á manninum.
Handan göturnnar, í gegnum gardínulausar glugga, sá ég að maðurinn sem býr á annarri hæð í íbúðinni andspænis mér var nývaknaður. Hann gekk alsber um stofuna sína, svefndrukkinn og alltof feitur. Eitt augnablik horfðumst við í augu yfir götuna. Ég flýtti mér að horfða undan en hann stóð kyrr og virtist ekki kippa sér upp við mig í glugganum handan götunnar, svo hann hélt áfram að leita að nærbuxunum sínum á gólfinu.“
Brátt fer ég aftur til Parísar (í næstu viku) til að vinna að verkefninu Fellibylurinn Betsy. Og nú hefur verkefnið fengið enskt nafn til að allir alþjóðlegu agentarnir sem vinna að sama verkefni skilji hvað þetta gengur út á: Betsy, the thunderstorm. Yo!