Einar, sem er landsþekktur maður, hefur það tómstundagaman að byggja líkan af litlum bæ í skúrnum við hliðina á fína húsinu sínu. Bærinn hans Einars hefur flest það sem notalegir smábæir hafa upp á að bjóða: bar, slökkviliðsstöð, miðbæ, kirkju, skóla og það mikilvægasta af öllu; járnbrautarstöð. Í gegnum bæinn keyrir lest, undir brú og yfir brú, og Einar fylgist með lífinu í bænum á meðan járnbrautarlestin brunar og reynir að halda áætlun. Það er Einar sem hefur lagt lestarteinana.
Einar eignaðist lítinn módelkall, flæking, og hann ákvað að koma honum fyrir undir járnbrautarbrúnni rétt við varðeldinn (gervi). Einar tók eftir því að hann hafði sett flækinginn þannig að það virtist eins og hann horfði inn í bæinn. Afhverju er hann að horfa þangað? hugsaði Einar. Hann horfir á eitthvað í litla, græna tréshúsinu. Einar sá að inni í græna húsinu var módelkona í glugganum. Hann sneri henni aðeins svo hún gæti horft út um gluggann. Í rauninni þannig að hún sá yfir til lestarbrúarinnar. Hmm, hugsaði Einar, ætli þau þekkist? Er flækingurinn skotinn í konunni og lætur sig dreyma um hana. Þekkir konan kannski flækinginn, þekkjast þau?Kannski kemur hann nær húsinu þegar dimmir? Svona hugsar Einar.
Það er þögn inni í skúrnum hjá Einari og ljóslaust, þó heyrist ómur frá lest sem nálgast bæinn úr austri. Einar fær sér sæti á tréstól með rauðu áklæði, til að vera í augnhæð við flækinginn og konuna í græna húsinu. Hann fylgist með hvað gerist. Ljósin frá litla bænum lýsa dauflega upp andlit Einars. Mínúturnar líða, lestin kemur í sjónmál, hægir ferðina og keyrir nú yfir brúna. Flækingurinn stendur kyrr við varðeldinn (gervi).