París. Bleyðuskapur karlmanns um kvöld?

Lífið hér í París er gott. Það er ekki oft sem ég bý einn eða er einn í lengri tíma. En það hentar mér vel þegar ég hef aðkallandi verkefni að sinna. Ég vakna snemma á morgnana og klukkan sjö  geng ég niður á lítið hippakaffihús hér í götunni sem býður upp á hafragraut með möndlum í morgunmat og gott kaffi. Það er rólegt á þessu kaffihúsi, ekki sérstaklega margir gestir og hippamúsikin er bara lágvær kliður í bakgrunninum. Allt ilmar af kanel.

Ég fékk ansi fyndið bréf í gærkvöldi  – ja, fyndið var það kannski ekki – frá karlmanni (?) sem ég þekki ekki og hef aldrei heyrt minnst á. Mér skyldist einhvern veginn á skrifum hans að hann væri nú hluti af einhverjum bókmenntahópi eða í ritlist í háskólanum eða eitthvað ýjaði hann að nánum tengslum sínum við bókmenntalífið á Íslandi. En hvað um það. Það hefur sína kosti og sína galla að hafa dagbókina opinbera. Ég hef svo sem ekkert að fela og mér finnst gaman að fá komment á skrif mín hér. Stundum hugsa ég meira að segja hátíðlega um sjálfan mig og dagbókina mína. Það geri ég þegar ég er drjúgur með mig og finnst mér hafa tekist vel upp. Hó, hugsa ég, nú var ég dálítið góður. Kannski ég geti kallað Kaktusinn, dagbók sem bókmenntaform. Svona hugsa ég stundum þegar vel liggur á mér.

En svo er mér skellt harkalega niður á jörðina. Í sakleysi mínu sat ég sem sagt í gærkvöldi og vann að Betsy-verkefninu, þegar inn í tölvuna mína kom e-mail með grófri fyrirsögn. Ég sá mig knúinn til að lesa þennan tölvupóst samstundis. Á hinum enda tölvupóstsins var væntanlega karlmaður, að minnsta kosti mætti ætla það af  undirskriftinni – veit ekki hvort maðurinn er ungur eða gamall, með sítt hár eða sköllóttur, með gleraugu … Á skrifum hans skyldi ég að honum fannst alveg ómögulegt að einhver karlpungur í útlöndum væri að segja fólki að bók Ólafs Jóhanns væri fyrirtak:

„Ólafur Jóhann er gamaldags rithöfundur sem getur ekkert annað en raðað saman gömlum klisjum sem í gamladaga þóttu fínar og gáfu textanum bókmenntalegt yfirbragð … Og hvað ert þú að setja þig á háan hest, uppgjafa útgefandi, langt frá íslenskum bókum, íslenskum höfundum og íslensku bókmenntalífi. Þú ert enginn grand old man sem getur lagt blessun þína á bækur … “ Jahá!

Eitt augnablik grunaði mig að á hinum enda línunnar væri rithöfundur eða viðskiptafélagi sem væri uppsigað við kollega sinn Ólaf Jóhann og í bleyðuskap sínum skrifaði undir fölsku nafni. Ég varð að minnsta kosti dálítið hissa á reiðinni á hinum enda línunnar og svaraði þessum karlmanni, ef hann er þá karlmaður, með stillingu.

ps. stelpan sem sat við hliðina á mér hér á hippakaffihúsinu í morgun var að lesa Afleggjara, eftir Auði Ólafsdóttur á frönsku. Ég öfunda hana að vera lesa bókina því ég man hvað mér þótti hún fín þegar ég sökkti mér niður í söguna á ferðalagi um Frakkland fyrir nokkrum árum. Það var góð ferð.

 

dagbók

3 athugasemdir við “París. Bleyðuskapur karlmanns um kvöld?

  1. Mikið getur fólk verið dónalegt og leiðinlegt, mér finnst þú hins vegar með skemmtilegri og gáfaðri mönnum og einstaklega réttsýnn maður. Bara svo það sé sagt:)

    • Hó, kæra Helga. Aldeilis fallega sagt. Ég lifi á þessu í dag. Þú skalt ekki hafa áhyggjur af að ég taki þetta nærri mér. Þetta er “part of the game” 😉 yo, Snæi

  2. Pingback: Fjallabaksleiðin

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.