París. Vínylplötuspilarinn

Hippakaffihúsið hérna í götunni freistaði mín í gær. Kaffiilmurinn barst út á götu þegar ég átti leið hjá. Ég kem þangað hvern morgun en er of feiminn til að mæta tvisvar á dag inn á sama kaffihús; um morgun og líka seinnipart dags. Ég lét því vera með að setjast þangað inn þótt ég hefði sannarlega haft gott af einum kaffibolla hjá þeim.

Allt gekk eins og best verður á kosið í gær. Mér varð mikið úr verki, miklu meira en ég hafði reiknað með að ég gæti áorkað á einum degi. Ég var bara í stuði. Og ekki sakaði að ég fékk svo fínan og hvetjandi tölvupóst frá félaga mínum sem setti extra tubo í rassinn á mér. Um miðjan dag fór ég út að ganga,  langan göngutúr, gekk hér um hverfið og inn í Gyðingahverfið. Ég leit meðal annars inn í bókabúð. Verst var að allar bækurnar í búðinni voru á frönsku og ég skil ekki orð í tungumálinu. Það vakti ahygli mína að bækur Jóns Kalmans voru í öndvegi í búðinni. Það gladdi hjarta mitt. Ég hef því séð tveimur íslenskum rithöfundum hampað í andlitið á mér í ferð minni til Parísar. Kalman og Auði Ólafsdóttur. Ótrúlega flott hjá þeim.

Það varð önnur freisting á vegi mínum í gær, auk hippakaffihússins. Ég sá lítinn, rauðan vínylplötuspilara í glugga verslunar í gönguferðinni. Mig langar stundum í gamaldags plötuspilara. Ég er farinn að kunna meta feita hljóðið sem kemur frá þeim. Ég var svo vitlaus að ég gaf allar vinylplöturnar mínar einu sinni þegar ég flutti. Tók þær allar á einu bretti, tvo stóra kassa, og setti á búðarborð verslunar í Reykjavík sem seldi notaðar vínylplötur og sagði að þeir mættu eiga þær. Ekki að mig hefði þá ekki vantað aurinn sem þessar góðu plötur kostuðu. Ég var bara í svo miklu uppnámi yfir öllu að ég gat ekki hugsað mér að nota eina sekúndu í að þrátta um verð við afgreiðslumann búðarinnar. Ég flýtti mér bara út áður en maðurinn í afgreiðslunni náði að stynja upp einu einasta orði.

Í gærkvöldi var ég á báðum áttum hvort ég ætti að fara út að borða eða hvort ég ætti að láta mér nægja að naga bagettubrauð sem ég átti hérna í Batmaníbúðinni og halda áfram mínu puði. Eftir töluvert hik komst ég að þeirri niðurstöðu að sennilega væri betra fyrir sálarheill mína að ég færi út og hitti fólk eftir alla einveru dagsins. Ég á svo sem eftir að hitta margt fólk í dag, ég á fundi úti í borginni, en það er önnur saga. Ég rölti sem sagt út og ákvað að fara á lítinn, ítalskan veitingastað hérna aðeins ofar í hverfinu. Mér finnst gaman að fara einn út að borða, ég er feiminn við það að vera einn við borð, en á sama tíma vex ég allur við það. Um leið og ég er sestur finnst mér ég bara dálítið hlægilegur gaur. Alltaf svo utangátta og úti að aka. Þú ert ágætur, Snæi minn, segi ég við sjálfan mig.

Mér var vel tekið á ítalska veitingastaðnum, ég heilsaði þjónunum á ítölsku og sletti fram nokkrum ítölskum frönsum til að létta stemmninguna en það kom í ljós að þjónarnir voru frakkar og töluðu ekki orð í ítölsku. Þeir voru þó viss um að ég var ítalskur sem var bót í máli eftir þessa misheppnuðu innkomu. Mér var vísað til sætis við langborð þar sem fyrir sátu nokkrir fransmenn. Þau tóku mér fagnandi og heilsuðu mér hver og einn með handarbandi þegar ég settist. Sjaldan fær maður svona innilegar móttökur á veitingahúsi. En það er svo gott við franska veitingahúsahefð að það eru allir bara að borða kvöldmatinn sinn eins og venjulega og ekkert merkilegt eða sérstakt við að sitja á veitingahúsi að loknum vinnudegi. Ég var strax tekinn inn í spjall þessa góða fólks.

Ég hafði ekki setið lengi þarna við langborðið og spjallað við sessunaut minn þegar inn kom ung kona. Ég tók ekki eftir henni fyrr en hún kom strunsandi í átt til mín, bendandi á mig með vísifingrum beggja handa og andlitið var eitt stórt bros. Ég sá að hún horfði á mig þessi kona, en ég gat með engu móti skilið að hún ætti erindi við mig, mitt inni Parísarborg.
„Zlatan,“ sagði hún skælbrosandi. Ég reyndi að lesa situasjónina. Var hún kannski að rugla mér saman við hinn eina sanna Zlatan eða þekkir hún mig frá Danmörku? Er þetta dönsk kona sem ég þekki? Er þetta einhver franskur bókaagent sem kallar mig Zlatan? Hver er þessi kona? Og svo breiddi hún út faðminn á móti mér og faðmaði mig og sagði á íslensku: „Gaman að sjá þig!“ Svo hlammaði hún sér á bekkinn á móti mér eins og það væri sjálfsagt að við sætum saman á veitingahúsi.

Ég hlýt að hafa verið eins og eitt spurningarmerki í framan þótt ég reyndi eftir bestu getu að leyna því. Hugurinn var að minnsta kosti á 1000 snúningum og hitastigið yfir 1000 gráður. Þessa konu hafði ég aldrei séð, eða það gat ég bara ekki munað. Ég virti þetta glaða andlit fyrir mér og ég sá í svipnum á henni að hún hafði uppgötvað að ég vissi ekki hver hún var. Hún fór að skellihlæja. „Þú veist ekki hver ég er? Hahaha!“

Ég var á báðum áttum hvort ég ætti að viðurkenna hvað ég var ómannglöggur eða hvort ég ætti að láta sem ég þekkti þessa ungu konu. Mér finnst leiðinlegt ef ég verka hrokafullur og líka ef ég er svo lélegur að gleyma fólki sem ég hef talað við. Á endanum stamaði ég: „Ég kannast svo vel við andlitið en ég kem ekki fyrir mig hvaðan?“

„Ég heiti Vera, systir Skúla, og við unnum einu sinni saman í leikhúsi. Nú bý ég á Spáni og er hér á ferðalagi með leikhópnum mínum.“ Ég var engu nær, ég mundi ekki eftir að hafa unnið með þessari ungu konu í leikhúsi og mín takmörkuðu störf fyrir leikhús voru fyrir langalöngu. En ég sat sem sagt alls ekki einn á veitingahúsi í gær.

 

 

dagbók

2 athugasemdir við “París. Vínylplötuspilarinn

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.