París. Vítahringur haturs og kjúklingur með sósu.

Ég þarf sennilega ekki að taka það fram að morguninn byrjaði á hippakaffihúsinu eins og aðrir morgnar hér í stórborginni París. Það var fámennt, óvenju fámennt á litla kaffihúsinu, svo fámennt að ég fékk svolitlar áhyggjur af rekstrinum. Eigendurnir, sæta hippaparið með ullarhúfurnar, virtist ekki kippa sér upp við fámennið heldur tók hlýlega á móti mér. Einu gestirnir fyrir utan mig voru tvær japanskar stelpur. En þær voru líka áberandi, báðar með barðastóra hatta sem þær tóku ekki ofan á meðan þær borðuðu morgunmatinn sinn.

Ég fékk mér hafragraut með eplum og möndlum eins og venjulega. Engin mjólk. Pabbi minn hefði ekki verið sérstaklega ánægður með að fá ekki mjólk út á hafragrautinn. En þetta er í síðasta sinn sem ég panta hafragraut hjá hippunum. Hann er of sætur, það er eitthvað sem þau kalla dolche de latte sem þau hella yfir og það er bara of sætt fyrir mig og ég er ekkert sérlega mikið fyrir sætmeti.

Ég fékk í gær alóvænt afhenta bók Stefáns Mána, Skuggarnir. Ég veit ekki hver þessi unga kona var sem kom færandi hendi. Var þetta sendiboði forlagsins (ég veit ekki einu sinni hvaða forlag gefur út Stefán Mána)? Ég hef því miður ekki tíma til að byrja á henni hér í París, þótt sú sem færði mér bókina hefði hvatt mig mjög til þess, og talaði um að bókin væri sú sem mest væri talað um á Íslandi í dag. Það fannst mér spennandi. Ég las þó í fljótheitum fyrsta kaflann um flugferðina norður til Kópaskers. Mér kom svolítið á óvart að finna ekki bókina á bóksölulista sem ég sá í gærkvöldi. Kannski var þetta gamall metsölulisti? En bókin er ansi flott. Flott kápa.

Hingað til hef ég sofið eins og engill í Parísarferð minni. Ég hef verið rólegur og einbeittur, sofnað hratt, sofið hratt og vaknað hress. En í nótt keyrði hausinn á fullri ferð, Fellibylurinn Betsy snerist í sínum eilífa hvifli inni í hauskúpunni á mér á meðan ég hálfsvaf. Ég ákvað því bara að fara á fætur klukkan sex og hugsað með mér að ég gæti  lagt mig síðar í dag þegar ég hef lokið erindum mínum inni í bæ.

En í dag hef ég bara ekki lagt mig. Ég hef barið hausnum við stein. Allt hefur gengið á afturfótunum, allt fór á versta veg í dag. Ég var gersamlega miður mín allan eftirmiðdaginn. Ég gekk um gólf, hring eftir hring. (Kaldal þarf ekki að hafa áhyggjur, stofan er svo lítil). Ekki þó eins og óður hundur heldur bara eins og maður sem veit ekki alveg hvað hann á að taka til bragðs. Ég reyndi allt til að róa mig. Ég fékk mér brauð (baguette) til að naga, ég opnaði poka með kartöfluflögum. Ég tók meira að segja áleggspakka með skinku og borðaði í einu lagi eins og glorhungraður hundur. Þegar ég hafði gleypt skinkuna skammaðist ég mín fyrir ástandið og settist niður og sagði rólega við sjálfan mig. OK. Við finnum út úr þessu, Snæi minn. Byrjum á að spila músik.

Ég stóð upp og spilaði konsertplötu með Chet Baker. Ég sat í sófanum og hlustaði þar til ég varð of óþolinmóður og stóð upp og gekk fleiri hringi um gólfið. Handan götunnar sá ég að íbúarnir á annarri hæð voru að skreyta jólatré.

Ég heyrði að það komu bæði tölvupóstar og SMS inn á tölvuna mína sem beið þess eins og þægur rakki að ég settist og tæki aftur til starfa. (Hér eru margar hundslíkingar, það eru líka margir hundar hér í París). Ég varð glaður að heyra að einhver mundi eftir mér en ég kíkti ekki á skilaboðin, ég beið þar til ég var orðinn rólegur. Ég ákvað þegar ég kom til Frakklands að ég skyldi ekki lesa  neinar heimasíður næstu daga, ekki fréttasíður, bókmenntasíður, fótboltafréttir eða neitt. Ég hef staðið við það, ég einbeiti mér.

Klukkan rúmlega sex fékk ég þessa góðu hugdettu, sem kannski mundi redda öllu mínu þungt fjármagnaða projekti. Nú er ég bjartsýnni. Nú bíðum við morgundagsins og sjáum hvort þessi hugdetta haldi.

Það má segja að stöðugur straumur tölvupósts hafi endað hér í Frakklandi. Það var eins og heimurinn vissi að ég væri í djúpri kreppu. Hingað bárust póstar frá ólíklegasta fólki , bæði mínum góðu vinum sem bregðast mér aldrei, börnum mínum og líka öðrum sem ég þekki minna. Og sem betur fer ekkert nema góðar hugsanir og enginn að kvarta undan mér eða Kaktusnum. Úff, ég má ekki við neinu í dag.

Ég verð eiginlega að hrósa ungum manni sem skrifaði mér langan tölvupóst og orðaði hugsanir mínar betur en ég get nokkurn tíma orðað þær. Þessi ungi maður, sem ég hef þekkt í nokkur ár,  kom víða við og ég hugsaði með mér: það er eru ekki margir á Íslandi sem hafa þessa heilagetu, ekki margir sem geta komið hugsunum sínum jafnglæsilega á prent og þessi ungi maður:

„Er íslenskt samfélag eitthvað slæmt? spyrðu kannski. Nei, það er ekkert sérstaklega slæmt. Það er bara heltekið af hatri. Það er statt í vítahring haturs. Þetta hatur er knúið áfram af fólki sem lifir af því að virkja hatur almennings. Pistlahöfundum, stjórnmálamönnum, rithöfundum: Öllum sem fá borgað fyrir að skrifa. Þessi ríkisstjórn er, eins og ég segi, ósigur hatursins. Hún er ósigur Gunnars Smára og hún er ósigur Illuga Jökulssonar og hún er ósigur Hallgríms Helgasonar. (Guð blessi þá). Ósigur þeirra sem kynna sér ekki málin með opnum huga heldur dæla út slagorðum og vandlætingarefnum sem eru vinsæl og eggja fólk til að grípa til aðgerða, aðgerða sem felast oftast í því að deila þessum sömu greinum á veraldarvefnum og kenna öllum öðrum en sjálfum sér um óhamingju heimsins.“

Ég vildi að ég hefði verið búinn jafnmörgum RAM-bitum og þessi ungi maður til að orða þessa hugsun sem ég hef reynt að setja fram af og til hér á Kaktus en hefur hljómað, úr mínum penna sem ámátlegt píp í samanburði við þessi kröftugu orð. Ég er fullkomlega sammála.

Ég ætla ekki að segja frá heimsókn minni á litla, ítalska veitingastaðinn í kvöld. Sósa og kjúklingur. Það getur ekki verið betra. Nú eru þau á veitingahúsinu orðin svo ánægð með heimsóknir þessa langa Íslendings, eftir fjörið í gærkvöldi, að þau setja limoncello snaps á borðið að loknum hinum himneska kvöldverði.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.