París. Ég hrasa, þess vegna er ég.

Ég er á fljúgandi siglingu. Þetta var satt að segja furðulegur dagur í gær. Ég vaknaði eldsnemma, útsofinn og tilbúinn að byrja að daginn. (í framhjáhlaupi verð ég að nefna það, þótt ég þoli ekki að hlusta á drauma annarra, að mig dreymdi að Baltasar Kormákur og Ingibjörg Pálmadóttir hefðu tekið við hippakaffihúsinu og nú stóðu þau fyrir kaffiafgreiðslu og voru með ullarhúfurnar á kollinum. Að vísu höfðu þau breytt „tema“ kaffihússins í eitthvað Búdda eitthvað. Namaste.).  Undir sturtunni og hugsaði eiginlega allan tímann um að drífa mig því ég mátti engan tíma missa. Nú skyldi ég skófla í mig morgunmatnum á hippakaffihúsinu, hugsaði ég á meðan heit sturtubunan yljaði minn guðdómlega kropp. Þetta var ekki stress, þvert á móti bara rólegur innri kraftur.

Ég var því eldfljótur að fara í föt og flýta mér niður. Samt skynjaði ég allan morguninn hvað París var þögul en mér datt ekki í hug að þessi syfja og doði ætti við hippana mína. Auðvitað væru þeir í stuði. En jú! Allt var lokað í gærmorgun og allir sváfu. Bakaríið var líka lokað og klukkan var meira en hálf átta. Ég sá á litlum hippamiða á hurð kaffihússins að klukkan 10 yrði fyrst opnað því það var laugardagur.

Ég flýtti mér því upp. Punktaði hjá mér það sem ég þyrfti að klára í dag. Fékk mér nespressokaffi hér í Batmaníbúðinni og svaraði nokkrum tölvupóstum sem hafa beðið mín í nokkra daga. Klukkan 10:00 var ég svo mættur til hippanna á kaffihúsið, pantaði ristað brauð með advokato (lárperu) og tvöfaldan espresso. Ég gleypti í mig brauðið og sneri aftur heim. Klukkan var tuttugu mínútur yfir tíu. Taktu eftir tímanum! Svo byrjaði ballið, ég var eins og Harley Davidson þerskivél. Ég var eins og John Deere þerskivél. Frá klukkan tuttugu mínútur yfir tíu og fram til klukkan hálf þrjú, leit ég ekki upp. Ég sló hvern akurinn á fætur öðrum. Einbeiting.

Ég leit sem sagt á klukkuna sem ég ber á úlnliðnum um hálfþrjú. Hálf þrjú! Nei, það getur ekki verið, hugsaði ég. Úrið mitt hefur stoppað í nótt, svo ég leit á símann minn af iPhone gerð. 14:30. stóð á skjánum. Mér fannst eins og ég hefði setið í þrjár mínútur.

Þetta var hreint ótrúlegt. Hreint guðdómlegt. Þvílík einbeiting. Þvílík geðveik einbeiting! Ég ákvað að verðlauna mig, nú færi ég í langan göngutúr, tæki Parisar High Line-gönguna. Gönguleið sem Jón Karl er búinn að hvetja mig til að ganga nokkra daga í röð. Nú lét ég verða af því með sömu orku og ég hafði knúið mig áfram um morguninn. Ég flaug í gegnum Parísarborg, fór fram úr öllum, líka þeim sem skokkuðu, strætóunum, bílunum. Ég þaut áfram. Hvað er með mig? hugsaði ég. Hefur einhver sett spítt í kaffið mitt? Ég hef fengið átta gata vél, ég keyri eins og Ferrari

Endamarkinu var náð á mettíma og svo sneri ég við og nú fór að halla undan fæti. Mér lá svo mikið á að ég snarvilltist. Ég hafði ekki hugmynd um hvar ég var. Og enn kom iPhone að notum. Á skjánum, sem fyrr um daginn hafði sagt mér nákvæmlega hvað klukkan var, gat ég nú séð að ég hafði farið í þveröfuga átt. Ég var kominn langt frá Batmaníbúðinni. Ég hrasa, þess vegna er ég.

Í gærkvöldi fór ég aftur á ítalska staðinn minn, Le petit italien, á Rue Saint-Gilles. Ég er orðinn auðfúsugestur þar. Þjónarnir tveir, ungur maður frá Marseille og tattóveraða stelpan, heilsa mér með handabandi þegar ég kem inn og eru augljóslega glöð að sjá mig, kvöld eftir kvöld. Bonsoir, monsieur. Ég er ansi velkominn.

Ég var varla sestur þegar ungi þjónninn frá Marseille kom með símann sinn og setti fyrir framan mig, því í honum gat maður séð fótboltaleik milli Arsenal og Manchester United í beinni útsendingu. Á meðan ég borðaði spaghetti með rækjum og tómötum horfði ég á þennan fína og fjöruga fótboltaleik. Er þetta ekki top nice? I love it.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.