París. Ég skrifa hjá mér dagafjöldann.

Hún var eiginlega glóandi heit þessi tilfinning sem sótti svo á mig þegar ég vaknaði. Ég vissi vel hvað það var sem kallaði fram þennan hita, þessa ókyrrð í maganum. Það er til orð yfir þetta á íslensku ég bara man ekki hvert orðið er. Það kemur alltaf ensk orð upp í hugann og það vil ég ekki nota.

En ég er kvíðinn og hræddur um að ég geti ekki endurtekið flugið frá því í gær, þetta mótstöðulausa svif í gegnum daginn. Allt heppnaðist í gær og nú horfi ég á tölvuna mína, pappírana og er hræddur um að nú standi ég í stað og komist ekkert áfram. Ég hef forðast verkefni mitt allan morguninn, alltaf fundið mér eitthvað annað til að gera; ég hef lesið, ég hef farið niður til hippanna og fengið mér kaffi, ég hef skrifað tölvupósta, ég hef hlustað á jólaóratoríu og skoðað gamlar myndir, og nú skrifa ég dagbókarfærslu en ég get ekki komið mér að verki. Ég þori ekki að byrja af ótta við að mæta fyrirstöðu og óyfirstíganlegri hindrun og þá er allt búið.

Nú hef ég fengið deadline á Betsy-verkefninu flutt til 30. apríl. Þann fyrsta desember taldi ég dagana (sem sagt í fyrradag) og skrifaði dagafjöldann hjá mér. 151 dagur. Eitt líf er að meðaltali 28.000 dagar.

dagbók

Skildu eftir svar