París. Síðasti dagur

Ég vakna til hins síðasta dags Parísardvalar minnar; flýg heim á morgun. Hvað á ég að segja? Þetta er gott? Já, þetta hefur sannarlega verið góð ferð. Hefði ég viljað vera lengur? Bæði og. Svona ferð gengur nærri mér. Ég hertek sjálfan mig, ég keyri mig áfram eins og ég sé andsetinn. Ég er einn í þessu vinnurúsi. En það er skemmtilegt að geta einbeitt sér svona algerlega. Engin innkaup, matseld … ekki neitt, bara ég og mitt verkefni.

Á einum af fyrstu dögum mínum í París gekk ég um hverfið hér, 3 hverfi eins og það heitir. Ég hafði gengið lengra en venjulega og farið inn á slóðir þar sem ég hafði ekki verið áður – var kannski með öðru auganu að leita að myndefni fyrir Kaktusinn – þegar ég rakst á búðarglugga þar sem bókum var stillt fram. Í dyrunum var skilti sem á stóð “ouvert”, opið. Ég leit inn um gluggann og sá að innst inni í þessari búð var einhver sem faldi sig bak við stóran tölvuskjá. Ég ályktaði sem svo að þetta væri forlag því bækurnar sem blöstu við voru allar af sömu gerð án þess að ég skildi hvernig bækur þetta væru. Ég hikaði við að ganga inn, var eitthvað feiminn við að æða inn á skrifstofu forlags þótt hún líktist bókabúð, en svo var mér aftur litið á skiltið í dyrunum „ouvert“ og ákvað þá að ganga inn. Varla væri verið að hengja slíkt skilti upp ef maður var ekki velkominn inn.

Ég steig því skrefið, gekk inn í verslunina og maðurinn sem hafði grúft sig bak við tölvuskjáinn kíkti upp og heilsaði. Ég vafraði þarna um milli bókaborða og leit á bækurnar sem allar voru á frönsku, svo ég gat hvorki lesið mér til gagns titla né innihald. Allt voru þetta einhvers konar listaverkabækur, ljósmyndun og myndlist. Og eins og sönnum fyrrum forleggjara sæmir fór ég að hugsa hvernig mögulegt væri að halda þessu forlagi gangandi með bækur sem sennilega höfðuðu ekki til mjög stórs hóps. Tölvan, sem stóð á skrifstofuborðinu, bar ekki vott um neinn sérstakan hokurbúskap, stór Apple tölva og skrifstofan var bæði björt og stór. Ég ætti sennilega ekki að hafa áhyggjur.

Á einu borðinu var frekar þykk ljósmyndabók sem ég fletti. Þetta var flott bók og sýndi margt athyglisvert. Ég íhugaði meira að segja að taka myndir af myndunum í bókinni en vildi ekki vera svo ósvífinn, með útgefanda bókanna þarna í tveggja metra fjarlægð. Ég fór út og maðurinn leit ekki upp svo ég var ekkert að kveðja.

Nú fjórum dögum seinna er ég enn að velta þessari bók fyrir mér og nú sé ég svo eftir að hafa ekki keypt hana, Í dag ætla ég aftur af stað og sjá hvort ég get fundið forlagið og bókina og í þetta sinn kaupi ég bókina. Ég minnist á þetta hér því bækur eru svo áhugaverðar, hvernig þær vinna. Dögum saman kraumar hugsunin um þessa bók innra með mér, án þess almennilega að skjótast upp á yfirborðið, og svo kemur hugmyndin af fullum þunga þegar minnst varði: fjórum dögum síðar vill þessi bók láta kaupa sig.

Ég vaknaði klukkan eitt í nótt, nýsofnaður. Einhver kom keyrandi inn götuna á mótorhjóli og stoppaði fyrir utan. Skellirnir voru svo háir í mótornum að ég vaknaði. Ég lá aðeins og hlustaði á eigandann þenja hjólið en reyndi að hlusta fram hjá þessum ærandi hávaða mitt um nótt og halda áfram að sofa. En mér var það ómögulegt. Þótt fyrir löngu væri búið að drepa á mótornum og eigandinn greinilega sofnaður undir hlýrri sæng einhvers staðar, lá ég og bylti mér og reyndi að hugsa eitthvað skemmtilegt svo ég svifi aftur inn í draumalandið. En ekkert gekk og þegar klukkan var gengin í þrjú settist ég upp og fór að lesa bók. Það var bara enginn svefn í mér lengur og ég las og las og beið þess að geta sofnað aftur.

Það var ekki fyrr en klukkan var langt gengin í sex að ég þvingaði mig til að sofa. Ég vaknaði við vekjarklukkuna klukkan átta og hefði vel getað sofið lengur. En slíkt var ekki í boði. Síðasti dagur, endaspretturinn. En ég hef þörf fyrir uppörvun, getur ekki einhver tekið það að sér að segja eitthvað skemmtilegt við mig.

Það var rólegt hjá hippunum í morgun.

IMG_0499 2

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.