CDG, Paris. Að reyna að segja eitthvað satt

Ég misreiknaði aðeins tímann og kom alltof snemma út á Charles deGaulle flugvöllinn í París á leið minni aftur heim til Espergærde. Umferðin út á flugvöllinn frá Batmaníbúðinni var létt og hröð og engar umferðarteppur á leiðinni eins og ég hafði sett inn í tímaútreikninga mína. Því sit ég hér á CDG-flugvelli og hef biðtíma fyrir höndum.

Það sótti á mig eitthver búddísk höfgi í leigubílnum á leið út á flugvöll. Leigubílstjórinn hafði vit á því að þegja og reyndi ekki eitt augnablik að fitja upp á samræðum við þennan síðhærða og þögla ferðalanga. Í stað þess hafði hann kveikt á útvarpi þar sem menn töluðu frönsku, ætli þetta hafi ekki verið fréttir og fréttaskýringar. Ég skil því miður ekki frönsku. En ég hefði getað setið í þessum þægilega bíl alla leið til Danmerkur og íhugaði eitt augnablik að láta hann bara keyra mig á áfangastað í stað þess að taka flugið. Þetta gerðu menn á tímum öskugossins í Eyjafjallajökli, keyrðu Evrópu þvera og endilanga í leigubíl.

Í gær eftir kvöldmatinn kvaddi ég vini mína á veitingastaðnum Le Petit Italien. Þarna stóðu þau, litli þjónninn frá Marseille, mjóa stelpan með tattóið og ungi menntaþjónninn með gáfulegu augun. Þau voru innileg, röðuðu sér upp til að kveðja mig með handabandi. (Ég hafði ætlað að taka mynd af þeim í gær en gleymdi því. Það var nú verra.)

Hipparnir á hippakaffihúsinu voru líka orðnir forvitnir um þennan langa mann sem kom á hverjum morgni til að borða morgunmat á litla kaffihúsinu þeirra. Í gærmorgun kom hippastelpan til mín, (ég er eiginlega að uppgötva það núna að auðvitað eru þetta ekki hippar, þessi manngerð heitir hippster) með ullarhúfuna á höfðinu. Hún hefur kolsvört augu sem tindra. Hún var svo undirleit þegar hún spurði kurteislega hvaðan ég kæmi. Hinir hippsterarnir stóðu við afgreiðsluborðið og ég tók eftir að þau lögðu við hlustir, rjátluðu með borðtuskur á meðan þau gutu augunum af og til í áttina til okkar. Þau vildu líka heyra.

Ég sagði henni hvaðan ég kæmi og spurði hana á móti hvaðan hún kæmi.
Hún kom frá París.
Hún spurði mig þá hvort ég kæmi ekki aftur á morgun.
Ég svaraði að nú væri ég á leiðinni heim og kæmi því ekki á morgun.
Þá komu hinir hipsterarnir og blönduðu sér í samtalið og lýstu yfir hryggð sinni yfir að ég kæmi ekki á morgun. Þeim fannst notalegt að ég kom til að borða morgunmat hjá þeim. Þau kvöddu mig líka með handabandi.

Ég hugsaði í nótt rétt áður en ég sofnaði: Mér líkar vel við rithöfunda sem reyna að segja eitthvað satt.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.