Espergærde. Hvað er fólk að hugsa?

Kominn heim. Aftur í mína fínu, gömlu rútínu. Vakna, göngutúr upp á skrifstofu á gömlu lestarstöðinni, vinna með alls konar, heim og það sem því tilheyrir. Þetta er gott líf. Á leiðinni upp á lestarstöðina hlustaði ég á podcast af Lestinni, gamlan þátt frá fyrsta desember. Ágætur þáttur. Hlustaði meðal annars á fyrirtaks pistil Hrafnhildar Þórhallsdóttur um … ja um hvað… Guð og almættið… ég veit það ekki … ljóð Ísaks Harðarsonar sem hún las var að minnsta kosti gott. En þótt ekki sé margt hægt að setja út á texti Hrafnhildar þá finnst mér lesháttur hennar ekki alveg eiga við mig. Ég hlustaði til enda og fór svo að hugsa um Ísak og mig langaði að lesa trúarljóðin hans. Ég hef hitt Ísak, heimsótt hann, skemmtilegur maður, en ólíkindatól.

Niðurstaða mín er – sem kom svo sem bara eins og svo oft áður upp í hausinn á mér  alveg upp úr þurru – að ég veit ekki hvernig annað fólk er.

Ég segi þetta því svona hugsa ég oft og þegar ég var í lestinni á leið frá flugstöðinni í gær fór ég að hlusta á samtal fólks sem sat andspænis mér. (Satt að segja var ég með headphone og var að hlusta á hljóðbók en þegar ég sá að fólkið talaði saman slökkti ég á hljóðbókinni til að geta laumast til að hlusta á samtalið.) Þetta voru sennilega hjón, að minnsta kosti  karl og kona sem þekktust vel, og þau fóru að tala um aðgöngumiða á tónleika sem maðurinn hafði gefið mömmu sinni. Og hvort hann hefði átt að bíða með að gefa henni miðana og gefa henni þá þess í stað í jólagjöf. En nú var það of seint. Auðvitað á ég ekki að hlusta á annað fólk tala saman en ég er sólginn í svona samtöl ókunnugs fólks, því það sækir svo oft á mig að mér finnst ég ekki vita hvernig annað fólk er.

ps. myndin hér að ofan er af konu sem ég virti oft fyrir mér frá glugganum á Batmaníbúðinni í París. Andspænis íbúðinni var galleri, Galleri Angel. Frá stofuglugganum sá ég beint inn í galleríið. Þangað kom aldrei neinn inn til að skoða myndirnar á veggjunum (eða ég sá aldrei neinn koma þangað inn) en þessi kona sat alltaf þarna í glugganum og beið eftir gestum þá sjö daga sem ég var í París. Hvað skyldi hún til dæmis vera að hugsa?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.